154. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2024.

fjármögnun stuðnings við Grindvíkinga og mótvægisaðgerðir á húsnæðismarkaði.

[16:55]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Það er algjörlega ljóst, eins og hv. þm. Kristrún Frostadóttir fór hér yfir að þessir atburðir í Grindavík eru af þeirri stærðargráðu að þeir munu hafa þjóðhagsleg áhrif á fjárhag ríkissjóðs. Ég er sammála hv. þingmanni hins vegar um að við sem samfélag, við sem ríki séum vel í stakk búin til að takast á við þetta og ég er sammála því meginsjónarmiði að þetta eru byrðar sem þjóðin á að bera sameiginlega. Þetta eru ekki byrðar sem við leggjum á Grindvíkinga eina heldur er þetta sameiginlegt verkefni og ég vil segja að það á auðvitað við um hvert það samfélag sem myndi upplifa aðrar eins atburði og Grindvíkingar hafa fengið að upplifa. En það er líka hárrétt að það að 1.200 fjölskyldur þurfi nú á nýju húsnæði að halda hefur að sjálfsögðu áhrif á húsnæðismarkað þar sem er þröng staða fyrir, getur skapað áhrif á verðstöðugleika og því er mjög mikilvægt að við gerum það sem unnt er til að lágmarka þau áhrif. Þar skiptir fjármögnun aðgerða að sjálfsögðu máli og það er eitt af því sem við þurfum að ræða í okkar samtali. Það er þegar búið að óska eftir fulltrúum stjórnmálaflokka inn í samtalið um í raun og veru hvernig við sjáum fyrir okkur stöðu eigna í Grindavík. Fjármögnunina er eðlilegt að ræða. Ég er ekkert viss um að við verðum öll sammála um það en við þurfum í öllu falli að ræða það. Ég hef sjálf haldið því til haga að ég tel eðlilegt til lengri tíma, ekki bara út af þessum atburðum, að festa í sessi það náttúruhamfaragjald sem hér var lagt á í tengslum við varnargarða og var svo sem alveg umdeilt í þessum sal. Mér finnst það blasa við að við sem samfélag þurfum slíkan tekjustofn og það er eðlilegt að við leggjum öll af mörkum í hann.

Síðan þarf að fara sérstaklega yfir stöðu náttúruhamfaratrygginga inn í þessa fjármögnun og síðan þarf að greiða fyrir framboði á húsnæðismarkað og ég kem að því í seinna svari. Ég mun nefna nokkrar þær aðgerðir sem þegar hefur verið ráðist í (Forseti hringir.) og aðrar þær sem eru á teikniborðinu. Það eru til að mynda aðgerðir (Forseti hringir.) hvað varðar skammtímaleigu, en ég fer yfir meira í síðara svari.