154. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2024.

fjármögnun stuðnings við Grindvíkinga og mótvægisaðgerðir á húsnæðismarkaði.

[16:57]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þessi svör en það er alveg ljóst að það var farið öðruvísi að í tengslum við þessar hamfarir en í tengslum við hamfarirnar fyrir 51 ári í Vestmannaeyjum þar sem sett var á fót ígildi þjóðstjórnar um þetta staka mál strax í upphafi. Við í Samfylkingunni, sem og fleiri í minni hlutanum, höfum boðið fram aðkomu okkar og ábyrgð á málinu. Hún er enn sem komið er takmörkuð en hæstv. forsætisráðherra talar nú um að skipuð verði samráðsnefnd og gerði það fyrr í dag eftir að við leituðum til hennar og það er gott og vel. En hvernig sem því vindur fram þá vil ég bara hnykkja á mikilvægi þess að þetta sé unnið í breiðri sátt því að þetta mál mun lifa þessa ríkisstjórn. Þetta á ekki að vera þrætuepli okkar á milli núna eða í náinni framtíð. Þetta mál þarfnast samfellu og traustrar stjórnar og það er það sem er best fyrir Grindvíkinga og þjóðina alla.