154. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2024.

fjármögnun stuðnings við Grindvíkinga og mótvægisaðgerðir á húsnæðismarkaði.

[16:59]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Við höfum þegar óskað einmitt eftir fulltrúum þingflokka á Alþingi inn í þennan samráðshóp og ég vonast til þess að hann geti farið af stað á morgun undir forystu fjármála- og efnahagsráðherra. Þar verða þessi mál vissulega rædd og ég tel borðleggjandi að það verði að huga að mótvægisaðgerðum vegna þessara aðgerða. Ég nefndi áðan mögulega fjármögnun til lengri tíma sem ég tel eðlilegt að við hugsum í þessu stóra samhengi, en ég vil líka ræða bara áhrifin á húsnæðismarkaðinn. Hæstv. innviðaráðherra er búinn að vinna mjög góða vinnu um einingahús og hvernig er hægt að auka framboð á húsnæðismarkaði í gegnum slíkar einingar, sem ég held reyndar að margir hafa fordóma fyrir en eru bara mjög góð hús og er hægt að nýta og ég tel alla vega út frá þeirri reynslu og þeirri skýrslu sem liggur fyrir að það séu mikil gæði í slíkum húsum. Hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra er með í smíðum frumvarp um takmarkanir á skammtímaleigu. Þar er auðvitað verulegur fjöldi íbúða. Það er mjög skjótvirk aðferð ef hægt er að takmarka skammtímaleigu (Forseti hringir.) til að auka framboð á markaði og þar með vinna gegn því að hér er fjöldi fjölskyldna sem þarf á íbúðarhúsnæði að halda.