132. löggjafarþing — 57. fundur,  1. feb. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[16:11]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra leyfði sér að segja í ræðustóli rétt áðan að þetta frumvarp sé sakleysið uppmálað. Það eru hræðileg öfugmæli, frú forseti, því þetta frumvarp hjálpar hæstv. iðnaðarráðherra að koma fleiri náttúruperlum á Íslandi í lóg fyrir erlenda álauðhringa. Hæstv. iðnaðarráðherra setur þetta frumvarp fram til þess eins að orkufyrirtæki sem stundi rannsóknir á vatnsafli verði ekki lengur svona treg, eins og segir í greinargerð hæstv. ráðherra með þessu frumvarpi.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs erum sátt við að orkufyrirtæki á Íslandi séu treg til að rannsaka virkjunarkosti í vatnsafli fyrir erlend álfyrirtæki. Við erum hins vegar ekki treg til að sjá til þess að staðinn sé vörður um íslenska náttúru. Það gerum við með andstöðu okkar við þetta frumvarp. Hún hefur verið mjög öflug og kröftug og við höfum talað hér lengi, eins og hæstv. ráðherra hefur gagnrýnt okkur fyrir. Við erum stolt af því hversu lengi við höfum talað í þessu frumvarpi og stolt af þeirri andstöðu sem hefur komið fram hjá okkur. Ég segi nei.