135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

efnahagsmál.

[10:45]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég get tekið undir það sem hv. þingmaður sagði. Í öllu því umróti sem nú hefur gengið yfir á fjármálamörkuðum og víðar í viðskiptalífinu er mjög mikilvægt að allir leggist á sömu sveifina hvað það varðar að tryggja samkeppnishæft rekstrar- og skattaumhverfi fyrir fyrirtæki á Íslandi. Í þeirri umræðu sem verið hefur um heimilisfesti viðskiptabankanna þá er þetta ekki síst mikilvægt því að þeir greiða tugi milljarða króna af afkomu sinni í skatta hér á landi og þær tekjur viljum við að sjálfsögðu ekki missa úr landi.

Fleiri ágætar hugmyndir voru í þeirri skýrslu sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni. Ein hugmyndin var t.d. sú að nýta sér þá miklu reynslu og þekkingu sem er í rekstri lífeyrissjóða hér á landi og reyna að byggja upp á Íslandi alþjóðlega lífeyrissjóðamiðstöð. Það er afskaplega aðlaðandi hugmynd sem okkur tekst vonandi að gera okkur mat úr á grundvelli þeirrar góðu reynslu sem við höfum af rekstri lífeyrissjóða í landinu.