138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[15:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2010, frá meiri hluta fjárlaganefndar. Nefndin hefur fjallað áfram um frumvarpið frá því að 2. umr. fór fram 13. desember sl. Í þeim tillögum sem hér eru lagðar fram kemur fram að gerðar eru breytingar, það eru komnar auknar tekjur og hallinn verður minni en leit út fyrir eftir síðustu umræðu.

Í endurskoðaðri tekjuáætlun efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis er gert ráð fyrir að tekjur verði í heildina 461.881,3 millj. kr. en það er hækkun um 3.151,5 millj. kr. frá því sem gert var ráð fyrir við 2. umr. um frumvarpið. Þetta skýrist af því í fyrsta lagi að reiknað er með að tekjuskattur af útgreiddum séreignarsparnaði verði 700 millj. kr. hærri en áætlað var, í öðru lagi að tryggingagjald verði 900 millj. kr. hærra og í þriðja lagi að virðisaukaskattur er áætlaður hækka um 1.600 millj. kr. Hækkun tekjuáætlunar frumvarpsins leiðir til minni halla sem nemur um 2,9 milljörðum kr. Tekjujöfnuður verður því neikvæður sem nemur 98,9 milljörðum kr.

Í þessum tillögum er gert ráð fyrir styrkingu á Byggðastofnun. Lagt er til að sú breyting verði gerð á fjármunahreyfingum í 2. gr. frumvarpsins, sjóðstreymi ríkissjóðs, að önnur eiginfjárframlög og hlutabréfakaup verði mínus 2.000 millj. kr. í stað mínus 1.000 millj. kr. Það er í samræmi við þá breytingu sem lögð er til með nýrri heimildagrein um að efla eiginfjárstöðu Byggðastofnunar með 1.000 millj. kr. stofnframlagi.

Gerðar eru nokkrar breytingar á útgjöldum milli umræðna auk þess sem nokkrar færslur eru milli útgjaldaliða. Nettóútkoma er hækkun útgjalda um 229,8 millj. kr. Stærstu breytingarnar eru framlög til sveitarstjórna eða sveitarfélaga og til félags- og tryggingamála auk menntamála.

Helstu breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar á útgjaldaliðum á milli umræðna eru að sveitarfélögunum verði tryggðar 1.200 millj. kr. viðbótarframlag í jöfnunarsjóð til að mæta hækkun á tryggingagjaldi. Þessu verður mætt með því að lækka lið 09-989 Ófyrirséð útgjöld, um sömu upphæð.

Þá er tillaga um 30 millj. kr. til að styrkja varasjóð húsnæðismála vegna félagslegra íbúða sveitarfélaga og loks má nefna að sett er inn 500 millj. kr. framlag til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins vegna aukinna verkefna til eftirlits með fjármálum sveitarfélaga.

Umönnunarbætur á liðnum 07-829 1.15 hækka um 200 millj. kr. samkvæmt tillögunum. Á móti lækkar ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar um 20 millj. kr. og lækkun áætlunar útgjalda vegna vasapeninga ellilífeyrisþega um 35 millj. kr. en sú lækkun á þó ekki að hafa áhrif á greiðslur vasapeninga til ellilífeyrisþega. Þá er liðurinn Stofnkostnaður á öldrunarheimilum lækkaður um 35 millj. kr. Mismunurinn er 110 millj. sem kemur til hækkunar á fjárheimildum í 3. umr.

Þá er við 3. umr. gerð grein fyrir nýju samkomulagi félags- og tryggingamálaráðherra og heilbrigðisráðherra þar sem nokkur hjúkrunarheimili auk tveggja samninga við sveitarfélög um öldrunarþjónustu eru færð til heilbrigðisráðuneytis. Gerð er tillaga um flutning fjármagns milli þessara ráðuneyta í samræmi við þetta samkomulag án þess að upphæðum sé í heild breytt.

Í útgjaldaliðnum er einnig gerð tillaga um að Sjúkrahúsið á Akureyri fái 4 millj. kr. til að hægt verði að tryggja áfram nám læknanema við sjúkrahúsið. Í menntamálunum fær Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri samkvæmt þessum tillögum 70 millj. kr. hækkun á framlagi til að tryggja nám í náttúru- og umhverfisvísindum, skipulags- og landslagsarkitektúr, skógfræði og endurheimt landgæða. Unnið er að samningi við skólann þar sem rekstur verður aðlagaður fjárveitingum til háskólans.

Þá er tillaga um hækkun á framlagi til framhaldsskólanna til að mæta aukinni virkni og fjölgun nemenda um 10 millj. kr. og verður þá heildarhækkunin í 2. og 3. umr. fjárlaga samtals 160 millj. Áður var búið að samþykkja í 2. umr. 150 millj. og þarna bætast 10 millj. við.

Í 2. umr. varð nokkur umræða um Keili og vegna þeirrar umræðu ætla ég að fara aðeins betur yfir það mál, skýringar sem ég vil að komið verði á framfæri. Það er þannig að auk 32 millj. framlags vegna nemenda í orku- og tækniskóla Keilis ehf. var samþykkt við 2. umr. um frumvarpið tillaga um að veita fjárframlag að fjárhæð 108 millj. kr. til Keilis ehf. til frumgreinanáms og annarra vinnumarkaðsúrræða. Einnig hefjast í byrjun næsta árs viðræður mennta- og menningarmálaráðherra og forsvarsmanna Keilis ehf. um gerð samnings um skólahaldið. Í þeim samningi verði fjallað um rekstrargrunn skólans og þess gætt að námið uppfylli skilyrði viðeigandi laga, þar á meðal samkeppnislaga vegna þess náms sem er rekið á samkeppnisgrundvelli. Farið verður yfir hlutverk Keilis ehf. bæði sem hluta af menntakerfi landsins og í uppbyggingu samfélagsins á Ásbrú, fyrrum varnarsvæðis á Keflavíkurflugvelli. Þetta er flutt til að árétta hvaða hugmynd liggur að baki fjárhæðinni í 2. umr. þannig að það valdi ekki neinum misskilningi hvað til stendur.

Gerðar eru tillögur um nokkrar leiðréttingar miðað við þær vinnureglur sem unnið var eftir við úthlutun til lista- og menningarmála, safna o.fl. auk þess að leiðrétta framlög til Íslenska upplýsingasamfélagsins samkvæmt nánari skoðun, en þetta birtist allt í tillögum sem fylgja framhaldsnefndarálitinu

Í 2. umr. tilgreindi ég þrjú atriði sem skoða ætti nánar fyrir 3. umr. Í fyrsta lagi nefndi ég tillögu um hækkun til samtakanna Beint frá býli en sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd gerði tillögu um að samtökunum yrði falið ákveðið verkefni og til þess yrði varið 4 milljörðum kr. Meiri hluti fjárlaganefndar gerir tillögu um þessi hækkun verði samþykkt. Í öðru lagi var ákveðið að skoða betur framlög til Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls. Ég ætla að taka það fram að heitið Snæfellsjökull þjóðgarður er rangt í breytingartillögunum, textinn, og þarf að laga það. Meiri hluti fjárlaganefndar gerir tillögu um hækkun á framlagi um 10 millj. kr. til vinnu við tilgreind verkefni samkvæmt lista frá Umhverfisstofnun. Í þriðja lagi var rætt um að skoða fjárframlög til Vegagerðarinnar með það að markmiði að auka ferðatíðni í ferjusiglingum en ekki er gerð tillaga um breytingu fjárheimilda til Vegagerðarinnar.

Í breytingartillögum á þskj. 546 er textabreyting í 6. gr., lið 7.15, og gerð tillaga um að textinn verði svohljóðandi: „Að stofna hlutafélag um byggingu nýs Landspítala og leggja félaginu til nauðsynleg lóðarréttindi ríkisins við Hringbraut undir bygginguna.“ Meiri hluti fjárlaganefndar telur í ljósi bréfs Ríkisendurskoðunar, dags. 15. desember 2009, til verkefnisstjórnar um byggingu nýs Landspítala að ástæða sé til að taka undir sjónarmið Ríkisendurskoðunar varðandi það hvernig með málið skuli fara. Mælt er fyrir um að þrátt fyrir að verkefnið byggist á reglugerð nr. 343/2006 um þjónustukaup og samninga þar að lútandi verði sett sérlög um byggingu nýs Landspítala jafnvel þótt ákvæði 30. gr. fjárreiðulaga gildi. Það er sem sagt niðurstaða meiri hlutans og fjárlaganefndar að sérstök lög um þá framkvæmd þurfi að koma til áður en ráðist verði í framkvæmdir við þennan spítala.

Í breytingartillögu meiri hlutans við frumvarpið er að finna 6. gr. heimild eins og ég las upp áðan sem lýtur að stofnun undirbúningsfélags og lóðarréttindum því tengdu. Óháð því telur meiri hlutinn að sérlaga sé þörf um verkefnið og að nauðsynlegt sé að huga að því áður en meiri háttar skuldbindingar hefjast. Nú eru til staðar fjárheimildir í verkefni á fjárlagalið 08-376 en ljóst er að fyrr en síðar þarf að horfa til frekari fjármögnunar í ljósi mikils umfangs. Verkefnið skuldbindur ríkið til langs tíma og um leið er verið að ráðstafa eignum og kveða á um fyrirkomulag framkvæmda. Með sérlögum verður öllum efa eytt og skilgreiningar verkefnisins munu liggja betur fyrir. Slík sérlög geta því komið fram síðar óháð afgreiðslu fjárlaga 2010. Í framhaldi af þessu er það mat meiri hlutans samhljóða mati Ríkisendurskoðunar að nauðsynlegt sé að tilgreina í fjárlögum hvers árs í framtíðinni þær greiðslur og skuldbindingar sem falla til á viðkomandi fjárlagaári.

Við fyrri umræðu var rætt um hvort og þá hvernig eigi að bókfæra skuldbindingu og framlög vegna byggingar tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu. Fram kom í 2. umr. að fjárlaganefnd beindi fyrirspurn til Ríkisendurskoðunar um þetta atriði og í bréfi til nefndarinnar í framhaldi af fundi 8. desember sl. er eftirfarandi svar:

„Leigugreiðslur ríkis og Reykjavíkurborgar eiga samkvæmt samningi að hefjast í mars 2011. Búið er að festa niður þessa upphafsdagsetningu hvað sem líður afhendingu hússins. Samkvæmt þessu þarf ekki fjárheimild vegna leigunnar í fjárlögum fyrr en 2011.“

Engu að síður benti Ríkisendurskoðun á að skoða þyrfti færslur vegna undirbúningskostnaðar á næsta ári. Þar er vísað í að verið sé að vinna að áætlun um kostnað en þessi áætlun liggur ekki enn þá fyrir frá Austurhöfn–TR, ekki nein áætlun sem hefur hlotið umfjöllun og afgreiðslu hjá eignaraðilum, hvorki hjá Reykjavíkurborg né ríkinu. Í fjárlagafrumvarpinu fyrr árið 2010 eru 70 millj. kr. í undirbúningskostnað undir liðnum 02-969 6.23 og er ekki gerð tillaga um að hækka þá upphæð.

Einnig var rætt í fyrri umræðu um bókun varðandi Icesave-samkomulagið og með hvaða hætti ætti að færa ríkisábyrgð á svokölluðum Icesave-lánum sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta áætlar að taka frá breska og hollenska ríkinu vegna greiðslu lágmarkstrygginga á Icesave-reikningum Landsbankans. Samkomulag er um með hvaða hætti eigi að færa þessar skuldbindingar en skilningur meiri hluta fjárlaganefndar er að ef samþykkt verða sérlög um ríkisábyrgð og þau verða afgreidd á þessu ári dugi þau lög til að fullnusta afgreiðslu málsins og í gögnum og umfjöllun um fyrirliggjandi frumvarp koma fram þær forsendur sem til þarf. Skuldbindinguna á síðan að færa inn í lokafjárlög fyrir árið 2009 ef málið verður afgreitt á þessu ári. Meiri hlutinn telur því ekki þurfa sérstakar ráðstafanir við afgreiðslu fjárlaga 2010. Eftirlit með vaxtakostnaði og heildarskuldbindingum fer síðan eftir ákvæðum áðurnefndra laga, ef þau verða samþykkt, laganna um ríkisábyrgð og verður þá farið samkvæmt þeim tillögum sem þar liggja fyrir en þar eru mjög ströng skilyrði um hvernig haga beri eftirliti með skuldbindingunum.

Ég ítreka að mikið hefur verið rætt í tengslum við fjárlagagerðina hve mikilvægt það er að bæta enn frekar allan undirbúning við gerð fjárlaganna, fjárlagaferlið í heild, sem og að styrkja eftirlitshlutverk fjárlaganefndar og Alþingis og þar að auki hefur líka verið bent á að styrkja þurfi lánasýslu í ríkiskerfinu. Mikilvægt er að þessi vinna hefjist strax á nýju ári. Þá hefur verið áætlað að setja af stað vinnuhóp innan fjárlaganefndar um að endurskoða allt ferlið varðandi umsóknir og afgreiðslu smærri erinda svo sem vegna safna, lista, fornminja, húsfriðunar o.s.frv. Þar þarf að skoða hverjar af þessum umsóknum eiga best heima í sjóðum sem þegar eru til staðar, að hve miklu leyti menningarsamningar sveitarfélaga geta leyst málin eða með hvaða hætti er hægt að fá fram sem skilvirkust ferli þar sem skýr markmiðssetning og forgangsröðun verkefna ræður ríkjum.

Þá mun meiri hluti fjárlaganefndar gera tillögu um að setja á stofn vinnuhóp til að skoða hagræðingarmöguleika í ríkiskerfinu þar sem áhersla verði á að skoða hver eigi að vera verkefni ríkisins og hvernig þeim sé best fyrir komið. Þar má sameina stofnanir til að hagræða og til að ná aukinni skilvirkni. Eru einhverjar stofnanir óþarfar eða betur komnar hjá öðrum aðilum? Öll slík skoðun tekur tíma en nú þegar er heilmikil vinna í gangi á vegum ráðuneyta og þvert á ráðuneyti en meiri hlutinn telur rétt að það fari fram sjálfstæð skoðun á vegum fjárlaganefndar Alþingis.

Ég vil að lokum þakka starfsfólki nefndasviðs enn og aftur fyrir þá frábæru vinnu sem það hefur innt af hendi oft undir miklu álagi og þá ekki hvað síst starfsmönnum fjárlaganefndarinnar. Þá vil ég einnig þakka nefndarmönnum í fjárlaganefnd fyrir þeirra vinnu og gott samstarf á milli umræðna.