138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[15:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta mál hefur verið töluvert í umræðu, bæði í þinginu og var auðvitað í nefndum að auki þó að fjárlaganefnd hafi ekki akkúrat verið að véla um það hvorum megin ákveðin hjúkrunarheimili eða öldrunarheimili væru staðsett, í heilbrigðisráðuneyti eða félags- og tryggingamálaráðuneyti. Við röktum þetta mál einhvern tíma fyrr í umræðunni þar sem fram kom að þegar Sjúkratryggingastofnun var sett á laggirnar voru uppi ákveðin áform og hugmyndir um það hvernig ætti að skipta verkefnunum milli félags- og tryggingamálaráðuneytis annars vegar og heilbrigðisráðuneytis hins vegar. Það var afgreitt fyrir þetta ár með samþykkt, ef ég man rétt, um að það ætti að ljúka þessu í janúar sl. hvað ekki var gert, en síðan náðist samkomulag á milli þáverandi ráðherra einhvern tíma í febrúar, ef ég veit rétt, með hvaða hætti þetta skyldi gert. Þannig fór það inn í fjárlögin.

Hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherra settust síðan yfir þetta mál að nýju og komust að samkomulagi með ákveðnum tveimur sveitarfélögum sem voru í upphafi tilraunasveitarfélög í þessum málaflokkum um þá skiptingu að færa þessi ákveðnu heimili og þessa umsýslu aftur undir heilbrigðisráðuneyti. Áfram verður unnið að því að koma þessum málaflokki í ákveðið horf. Þetta er svo sem ekki endanleg breyting en gildir þá þetta ár. Fjárlaganefnd hefur tekið inn í sínar tillögur það samkomulag sem þar náðist og ekki fjallað efnislega um það í neinum smáatriðum.