138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:00]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þór Þórhallssyni andsvarið. Hvað varðar skattahækkanir á röngum tíma er það svo með þessar svokölluðu keynesísku kenningar að á samdráttartímum og í kreppu getur það vel gengið upp að hækka skatta og nota fé sem innheimtist af sköttunum til framkvæmda í gegnum ríkisvaldið. Staðan sem Ísland býr við í dag er hins vegar sú að þær auknu tekjur sem ríkissjóður fær af hækkun skatta fara ekki í aukin verkefni á vegum ríkisins, þær auknu tekjur fara í að greiða vexti af skuldum. Afraksturinn af skattahækkununum sem afl inn í hagkerfið verður því enginn og mun þar af leiðandi mjög líklega leiða til dýpri kreppu.

Ég átta mig ekki á því hvort mönnum hafi einfaldlega yfirsést þetta eða menn séu haldnir einhverri ofurbjartsýni, hvort heldur sem er skiptir ekki endilega máli, en ég hef verulegar áhyggjur af því að framhaldið verði þannig að heimilin muni kikna undan skattálögunum og fyrirtæki muni gera það líka og hér verði einfaldlega lengra samdráttar- og stöðnunarskeið. Við höfum dæmi frá Japan sem fór í gegnum nærfellt 20 ára tímabil stöðnunar og verðhjöðnunar vegna þess að Japan skuldaði svo mikið og svo stór hluti tekna ríkisvaldsins fór í að greiða eingöngu vexti af skuldum.