138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:22]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir afar athyglisverða ræðu sem ég hlustaði vel á. Hv. þingmaður kom mjög vel inn á öldrunarþjónustuna almennt sem hún hefur mikla þekkingu á.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um eitt atriði vegna þess að hv. þingmaður kom inn á mikilvægi sveitarfélaganna gagnvart öldrunarþjónustunni og ég er algjörlega sammála hv. þingmanni þar. Hvaða skoðun hefur hv. þingmaður á því að nú er hæstv. ríkisstjórn búin að færa tekjur frá sveitarfélögunum upp á 2,5 milljarða? Það er búið að gera með einskiptisaðgerð, annars vegar í tryggingagjaldinu og hins vegar í atvinnuleysisfrumvarpinu nýja, þetta eru 2,5 milljarðar. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að það bitni á sveitarfélögunum? Staða þeirra er því miður ekki nógu góð um þessar mundir, en sú grunnþjónusta sem sveitarfélögin veita er að sjálfsögðu m.a. öldrunarmálin. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að þetta muni koma mjög harkalega niður á þann þátt hjá sveitarfélögunum?