138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:35]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég óttast það og tel alveg ljóst að niðurskurðurinn á næsta ári verði jafnvel meiri en hann er í ár, geti a.m.k. orðið það og ég óttast að hann verði það. Þess vegna er líka mikilvægt að við stöndum við fjárlögin og aðgerð fjárlaganna eins og þau eru í ár, tökum á okkur þessa þungu byrði núna til að reyna að minnka fjárlagahallann svo eftirleikurinn fyrir þarnæsta ár verði þá aðeins léttari því að við getum ekki ýtt þessum vanda á undan okkur. Ef við gerum það ekki, ef við förum ekki þá leið sem við erum að fara hér, að vinna markvisst að því að ná jafnvægi í ríkisfjármálum á sem skemmstum tíma, verðum við bara með þeim mun hærri vaxtabyrði á herðunum og það mun fara mjög illa með þjóðina. Ég geri mér fyllilega grein fyrir að þetta er erfitt núna en það verður ekki betra á næsta ári.