138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:37]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að lýsa mikilli ánægju minni með þá niðurstöðu sem hér er fengin og hv. formaður heilbrigðisnefndar lýsti, sem hefur orðið til þess að yfirfærsla fjárheimilda á milli þessara tveggja ráðuneyta verður nú tekin í skynsamlegum áföngum á grundvelli ákveðinna sjónarmiða sem hv. formaður heilbrigðisnefndar lýsti.

Ég vil líka nota tækifærið til þess að þakka bæði heilbrigðisnefnd sem slíkri og sérstaklega formanni hennar, hv. þm. Þuríði Backman, sem hefur eins og hér hefur verið bent á víðtæka reynslu og ríka tilfinningu fyrir þeirri þjónustu sem þarna er verið að fjalla um. En mig langar til þess að spyrja hv. formann heilbrigðisnefndar um afstöðu nefndarinnar í heild, hvort sú niðurstaða sem hér er fengin njóti ekki stuðnings heilbrigðisnefndarmanna almennt.