143. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2014.

veðurfarsrannsóknir og markáætlun.

180. mál
[16:54]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra sem gegnir einnig því hlutverki að vera formaður Vísinda- og tækniráðs, þar sem lagðar eru línurnar í stefnumótun hvað varðar rannsóknir og nýsköpun og hvað varðar hvert eigi til að mynda að stefna í markáætlun og öðrum slíkum tækjum sem stjórnvöld hafa til að hafa áhrif á rannsóknastefnu stjórnvalda. Ástæða þess að ég spyr er sú að Ísland liggur norðarlega og við fáum sífellt og ítrekaðar fréttir af áhrifum loftslagsbreytinga sem fáir efast um lengur. Nú síðast kynnti vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna nýja skýrslu í haust. Hún sýndi þá þróun frá síðustu skýrslu þar á undan, sem kom árið 2007, að jöklar hafi bráðnað hraðar en áður var gert ráð fyrir, að yfirborð sjávar hafi hækkað hraðar og við vitum alveg hvað hækkun sjávarborðs þýðir fyrir íbúa á láglendari svæðum.

Þessar breytingar geta líka haft þau áhrif að sjálfsögðu að veðurfar verði öfgakenndara og síðan eru ýmsar afleiðingar sem eru kannski ekkert ræddar í daglegu tali eins og til að mynda súrnun sjávar sem við höfum tekið til umræðu í hv. umhverfis- og samgöngunefnd í sambandi við losun á koldíoxíði. Að sjálfsögðu erum við yfirleitt að hugsa um gróðurhúsaáhrif í andrúmslofti þegar við ræðum um aukna losun á koldíoxíði, en talsvert af koldíoxíðinu finnst líka í sjó og getur haft veruleg áhrif á lífríki sjávar og ekki síst hér á norðurslóðum þar sem hafið er jafnvel talið viðkvæmara en önnur svæði, það er ferskvatnsblandaðra en önnur hafsvæði og þá er sjórinn viðkvæmari fyrir sýrustigsbreytingum. Við getum því verið að horfa fram á miklar vistkerfisbreytingar hér á næstu árum og áratugum.

Það sem skiptir mestu í þessum málum er að við þurfum að hafa gögn og við þurfum að hafa rannsóknir til að byggja alla okkar ákvarðanatöku á. Þegar við horfum til að mynda til súrnunar sjávar skiptir þar mjög miklu máli að standa að reglulegri vöktun, því að þar tekur það ekki eitt kjörtímabil að fá niðurstöður, þar þurfum við að horfa til lengri tíma og fylgjast með. Þetta er auðvitað ein af undirstöðum fyrir okkar efnahag, þ.e. lífríki sjávar hér í kringum okkur, fyrir utan hinar hnattrænu afleiðingar sem ég hef ekki tíma til að fjölyrða um hér, en vænti þess að hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar séu vel heima í.

Mér finnst við hæfi að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ástæðu til þess að Íslendingar leggi með einhverjum hætti sérstaka áherslu á að kanna loftslagsbreytingar, sýrustig sjávar og fleiri veðurtengda þætti í rannsóknum á Íslandi, til að mynda í tengslum við gerð markáætlana. Það er þó ekkert eina leiðin. Við höfum horft til að mynda á nágrannalönd okkar fara þær leiðir í vísindarannsóknum að þar eru settar á laggirnar ákveðin öndvegissetur í rannsóknum sem þykja þjóðhagslega (Forseti hringir.) og samfélagslega mikilvægar. Þannig að ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvert hans sjónarmið sé í þessu máli.