144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Seinni einkavæðing bankanna var gerð án nokkurrar umræðu á Alþingi og án þess að breytingar hefðu verið gerðar á starfsumhverfi banka og annarra fjármálafyrirtækja eða lögum um fjármálafyrirtæki í kjölfar hrunsins. Þess skal getið að Glitnir var einkarekinn banki allt fram að hruni eða þar til ríkið tók hann yfir og hann varð að ríkisbanka. Síðan tók síðasta ríkisstjórn ákvörðun um að færa lánadrottnum Kaupþings og Glitnis umsvifalaust hina nýju banka sem stofnaðir voru á grunni hinna gjaldþrota banka sem ég minntist á.

Stærstur hluti Landsbankans á þessum tíma var og er enn í eigu ríkisins og það alvarlegasta er að sú ákvörðun að taka vald af Fjármálaeftirlitinu og færa inn í fjármálaráðuneytið var tekin án nokkurs faglegs mats, verðmats eða útboðs. Mikilvægt er að á einhvern hátt verði farið yfir þessi gögn og það gert opinbert á sundurliðaðan hátt hvert matsverð þessara eigna var við flutning frá föllnu bönkunum og yfir í hina nýju banka og það skýrt dregið fram hverjir voru ábyrgðaraðilar þess verðmats og hvaða forsendur lágu því til grundvallar.

Virðulegi forseti. Þetta mál hefur verið mjög til umræðu síðustu daga og eru mjög skiptar skoðanir um það. Hv. þm. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, tjáði sig með afgerandi hætti á Bylgjunni í gær þar sem hann taldi það fásinnu að skoða þetta frekar. Því spyr ég hv. þingmann: Er þetta sett fram sem pólitísk hagsmunagæsla eða er vísvitandi verið að halda upplýsingum frá fólki til að þurfa ekki að takast á við málið eða (Forseti hringir.) að viðurkenna að hér sé breytt niðurstaða í málinu sem gæti haft úrslitaáhrif fyrir framtíð íslenskrar þjóðar?