146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[13:14]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Þegar rætt er um fjármögnun á háskóla- eða menntamálum á Íslandi bið ég hv. þingmenn að fletta upp á bls. 81 í áætluninni. Þar koma ágætlega fram opinber útgjöld á Norðurlöndunum til m.a. menntamála. Þar er meðaltal landanna án Íslands 6,3% af vergri landsframleiðslu árið 2015. Ísland er með 7,5% og ekkert land kemst nálægt því nema Danmörk með 7%. (KÞ: … um grunnskólana?) Þegar við ræðum síðan um skóla án aðgreiningar, sem hv. þingmaður nefndi og talaði um að verið væri að falsa upplýsingar í þá veru að niðurstaða skýrslunnar fullyrti að nægt fjármagn væri inni í kerfinu til að þjónusta þennan málaflokk, þá er þetta Evrópustofnun um skóla án aðgreiningar. Þetta er erlend hlutlæg úttekt sem kemur með þessa yfirlýsingu. Hún er ekki búin til af stjórnvöldum.

Það hlýtur hins vegar að vera öllum umhugsunarefni varðandi það sérstaklega, skóla án aðgreiningar og þá stefnu sem þar er uppi og við eigum að bera stolt fram, ef 16% íslenskra skólabarna eru greind með einhver frávik frá því að vera, innan gæsalappa, „venjulegur nemandi“. Viðmiðin í samanburðarlöndum okkar eru 5%, í hæsta lagi 6%. Þá hljótum við að gera hlutina með einhverjum allt öðrum hætti en flestir aðrir sem við viljum í öðrum efnum bera okkur saman við.

Það er full ástæða til að taka á og skoða þá þætti. En ég vil undirstrika að það er ekki skoðun þess sem hér stendur að sveitarfélögin beri alla ábyrgð í þeim efnum, alls ekki. Þetta er okkar sameiginlega ábyrgð. Okkur ber skylda gagnvart skjólstæðingum okkar, sérstaklega í grunnskólunum, til að (Forseti hringir.) bæta úr þeim vanköntum sem þarna hafa verið leiddir fram.