146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:48]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Herra forseti. Já. Heimurinn er að skiptast upp í ríki sem kjósa fjölþjóðasamstarf og ríki sem velja tvíhliða samstarf. Það er mín skoðun að við eigum að fylkja okkur í lið með þeim ríkjum sem velja fjölþjóðasamstarfið, eins og t.d. Norðurlöndunum, frekar en að eyða of miklu púðri í þau sem eru að færa sig meira í átt að tvíhliða samstarfi eins og Bandaríkin. Tvíhliða samningar þjóna yfirleitt alltaf mest og best hagsmunum þeirra stóru. Smáríki eins og Ísland á meiri möguleika í fjölþjóðasamstarfi en í tvíhliða samningum við stór ríki.

Það eru sannarlega ýmsir aðilar í dag sem eru að einbeita sér að því að splundra Evrópu. Það er mín skoðun að við eigum að vera í liði með Evrópusambandinu. Ég er því ekki ein af þeim sem fagna útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Ég held að það sé ekki gott fyrir stöðugleika í álfunni okkar, eins og ég kom inn á í fyrri ræðu minni. Það er ekki gott fyrir Evrópusambandið, ekki gott fyrir Breta og ekki gott fyrir Ísland. Við horfum á eftir einum af okkar lykilviðskiptaaðilum innan EES, Bretum, út úr Evrópusamstarfinu. Við erum að flytja út 11% til Breta. Það er gríðarlega mikilvægt og forgangsmál ríkisstjórnarinnar að tryggja áfram þá markaði. En það er samt alveg ljóst að stærsti hluti okkar útflutnings fer til Evrópusambandsins.

Stöðugleiki á alþjóðasviðinu, svo að ég segi það aftur og ítreki, er það besta fyrir smáríki. Óstöðugleiki þýðir óöryggi og smáríki eiga erfiðara með óöryggi í alþjóðasamskiptum en stærri ríki. Ég brýni því ráðherra, og staðgengil hans, til að forgangsraða fjármagni í þágu fjölþjóðasamstarfs. Ég vona að við munum sjá þess stað í fjárlögunum í haust.