146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:44]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa yfirferð og spurninguna. Það er alveg rétt sem þarna kemur fram, mikilvægi löggæslunnar verður seint of mikið talað um. Löggæslan er eitt af forgangsatriðum ráðherra í fjármálaáætluninni. Til að svara spurningunni fyrst: Já, það er gert ráð fyrir að þessi viðbót verði varanleg. Hún kemur þá til viðbótar við aukið fjármagn síðastliðin ár.

Á þessu ári mun lögreglumönnum og landamæravörðum fjölga um a.m.k. 30. Stefnt er að því að tryggja fé til löggæslumála næstu fimm árin svo að leggja megi frekari áherslu á löggæslu í samræmi við fjölgun ferðamanna, eins og hv. þingmaður kom inn á. Líkt og ég kom inn á áðan er hálendiseftirlitið dæmi um það.

Sömuleiðis er áhersla á netglæpi og ofbeldisbrot. Það verður jafnframt lagt kapp á að byggja upp landamæravörslu, sem er mikilvægur þáttur í öryggismálum þjóðarinnar og auknar kröfur hafa einnig verið gerðar til landamæravörslu á grundvelli alþjóðaskuldbindinga, þar á meðal á vettvangi Schengen-samstarfsins. Má þar nefna helst ný gagna- og upplýsingakerfi, styrkingu kerfa sem nú eru starfrækt, eflingu viðbúnaðar lögreglu og svo er unnið að því í samvinnu við tollgæslu að sett verði upp ný móttökukerfi fyrir farþegaupplýsingar og sjálfvirk landamærahlið.

Þessi áhersla á landamæraþáttinn kemur út úr faglegri greiningu á því hvar þörfin er mest. Niðurstaðan úr því var að hún væri hjá landamæraeftirlitinu og svo sérstaklega á þeim svæðum þar sem fjölgun ferðamanna hefur verið mikil. Það er unnið samkvæmt því.