146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:50]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að segja að mér þykir þetta form á umræðum á Alþingi ansi skemmtilegt og líflegt og hefði gjarnan viljað sjá alla ráðherra ríkisstjórnarinnar vera viðstadda. En svona er þetta, menn hafa ýmsum skyldum að gegna.

Mig langar að byrja á að grípa niður í kafla um dómstóla á bls. 113 og velta aðeins fyrir mér fjármögnun þessara verkefna út frá gefnum upphæðum. Í áætlun kemur fram að í dómstólana fari tæpir 3 milljarðar, eða 2,9 árið 2018, og svo enn minna árið 2022, eða 2,8 milljarðar. Þegar maður skoðar svo upplýsingarnar sem birtast í skjalinu veltir maður fyrir sér hvernig ríkisstjórnin hyggist ná markmiðum sínum miðað við þessar upphæðir. Á bls. 117 er m.a. talað um að markmiðið sé að aðgangur að dómstólum sé greiður, málsmeðferð skilvirk og réttlát og mannréttindi virt o.fl.

Á bls. 114 kemur fram að nýskráðum málum og dæmdum málum í Hæstarétti hafi fjölgað talsvert mikið á milli ára. Sú þróun heldur væntanlega áfram þannig að kostnaðurinn hlýtur að aukast.

Annað sem kemur fram í þessum gögnum er að málsmeðferðartími hafi aukist töluvert. Ég geri ráð fyrir að kostnaður aukist samhliða því. Fram kemur að aukin þörf sé á sérfróðum meðdómendum. Mig langar til að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra varðandi það. Hvernig á að (Forseti hringir.) ná því í samráði miðað við þau verkefni sem fyrirsjáanleg eru, miðað við þær fjárhæðir sem um ræðir? Hvernig gengur það upp?