146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:41]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Við erum ekki að tala sama umhverfistungumálið. Það er einfaldlega þannig að ef við skoðum fjármagn sem var veitt til þessa málaflokks árið 2016 fóru 3,4 milljarðar í náttúruvernd, skóg- og landgræðslu, 3,1 í rannsóknir og vöktun, 3,5 í meðhöndlun úrgangs, varnir gegn náttúruvá 1,2, stjórnun var 3 milljarðar. Ef við leggjum allt saman, að undanskilinni stjórnuninni, eru þetta um 11–12 milljarðar.

Síðan skoðum við viðbótina næstu fimm ár, hún er um 1,3 milljarðar. Ef við deilum fimm í það erum við með um 257 milljónir á ári í þennan málaflokk. Í samræmi við markmiðin er þetta einfaldlega allt of lítið. Það er alveg sama hvernig menn snúa þessum peningum fyrir sér, þetta gengur bara ekki upp. Þar með ganga heldur ekki upp þau markmið sem við höfum sett okkur í loftslags- og umhverfismálum.

Það eru líka jókerar í spilinu eins og stundum er sagt. Við erum að fara út í hugsanlega mjög fjölþætt fiskeldi þar sem mjög margt er óljóst. Þar held ég að sé stór óviss kostnaðarþáttur í öllu saman.

Ef þetta er svo mælt við þetta kostnaðarþak, við skulum kalla það fjármálaþak, sem búið er að setja upp, 41,5% af vergri landsframleiðslu, þar sem er 0,5% bil, held ég að hvernig sem á þetta er litið verði að finna einhverjar leiðir til þess að auka fé í þennan málaflokk, umhverfis- og loftslagsmál. Það er hægt að gera með skattheimtu, gjaldaaukningu, búið er að tala um 100% aukningu kolefnisgjalds, en það eru miklu fleiri leiðir vegna þess að það er jú auðlindanýting sem er ekki skattlögð nægjanlega. Það eru stórtekjur í ákveðnum (Forseti hringir.) atvinnugreinum og hjá ákveðnum þjóðfélagshópum. Hægt er að ná í þessa peninga og það verður að gera það. Það er engrar undankomu auðið.