146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:50]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Varðandi byggðamálin er það að segja að við erum í mjög nánu samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og erum þar að vinna í samvinnu við þá að möguleikum á að greiða enn frekar fyrir því að sveitarfélög geti sameinast. Það er viðurkennt að reglur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, sem skipta sveitarfélög mörg hver mjög miklu máli og grundvallarmáli, hafa jafnvel virkað sem þröskuldur í þeim efnum. Við horfum til þess að reyna að breyta þar fyrirkomulagi, mynda hvata í gegnum jöfnunarsjóðinn til að sveitarfélögin geti sameinast og þar með styrkt stöðu sína.

Vaxandi verkefni sveitarfélaga eru mikil og skyldur þeirra miklar. Ljóst er að fámenn sveitarfélög eiga erfitt með að uppfylla skyldur sínar, sérstaklega ef til lengri tíma er litið. Ég held að þetta sé nauðsynlegt skref. Við finnum fyrir því að það er jákvæður tónn víða um land í þeim efnum og því er almennt fagnað. Við erum að reyna að vinna að þessum málum.

Varðandi hver mælanlegu markmiðin eru held ég að þau mælist í sjálfu sér almennt á þeim sterku samskiptum sem við erum í við sveitarfélög og finnum þannig alveg hvernig straumurinn liggur. Það hefur farið mikill tími hjá mér eftir að ég kom í ráðuneytið í að funda með sveitarfélögum víðs vegar um landið og fara yfir þeirra mál. Ég tel að þó að við séum ekki með mælistiku beint á þetta á hverjum degi, einhvern hitamæli, séum við ágætlega upplýst og í tengslum við þá aðila til að geta metið stöðuna.

Hvað varðar stöðuna á Vaðlaheiðagöngum eru þar þekkt vandamál sem munu seinka opnun þeirra. (Forseti hringir.) Þeir sem standa að byggingu þeirra fullyrða að ekkert hafi breyst í viðskiptamódelinu og þau muni verða sjálfbær með þeirri innheimtu sem þar er fyrirhuguð.