146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:59]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Já, við settum okkur þau skýru markmið þegar ég kom í ráðuneytið og við vorum að fara yfir ráðstöfun á því fé sem við höfum til framkvæmda á þessu ári að þar yrði forgangsraðað að mestu leyti í þágu öryggissjónarmiða. Verkefnin hafa verið valin m.a. með tilliti til þess.

Það eru auðvitað mörg sjónarmið sem þarf að taka tillit til þegar um er að ræða margar stórar og mikilvægar framkvæmdir úti um allt land. Grindavíkurvegur er dæmi um það. Ég nefni Krísuvíkurgatnamótin sem einhvern tíma var nú deilt á í ræðum í þingsal þegar þessar ákvarðanir voru birtar, að þau hefðu kannski frekar átt að fara eitthvert annað og ýjað var að því að ráðherrann hefði verið að forgangsraða í þágu síns kjördæmis. Ég vísa því alveg á bug. Um þessi gatnamót fara, ef ég man rétt, 17–18 þúsund bílar á dag. Það fer mjög mikill þungaflutningaakstur um þessi gatnamót á hverjum degi vegna þeirrar starfsemi sem er þarna á iðnaðarsvæði. Þarna er klárlega um að ræða ein hættulegri gatnamótin sem við höfum í landinu. Vinnu við þau mun ljúka í nóvember.

Án þess að það sé endanlega staðfest má reikna með því að það kosti, með því að taka þessar leiðir inn og út af höfuðborgarsvæðinu austur fyrir Selfoss, suður til Keflavíkurflugvallar og upp að Borgarnesi, í kringum 100 milljarða plús. Þar er talin með sú leið sem þarf að fara út úr borginni og vestur um. Það gefur auga leið að þetta eru fjárfrekar framkvæmdir. Þær munu taka til sín mikið fé á næstu árum. Með því að létta þeim framkvæmdum af þeim reglulegu (Forseti hringir.) fjárveitingum sem við höfum, fjármagna þær sérstaklega, munu ruðningsáhrifin verða þau að (Forseti hringir.) við munum hafa úr meiru að moða í verkefni annars staðar á landinu og á höfuðborgarsvæðinu.