146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:06]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vildi gjarnan fá að spyrja hæstv. samgönguráðherra út í það hvað hann sjái fyrir sér að gera varðandi samgöngumálin hér á suðvesturhorninu. Við sjáum í tölum sem fylgja þessu riti gífurlega aukningu umferðar hér á höfuðborgarsvæðinu. Það kemur jafnframt fram að gert er ráð fyrir því að í ár heimsæki okkur 2,4 milljónir ferðamanna. Nánast hver einasti ferðamaður kemur hingað á suðvesturhornið. Það bætist síðan við að umferð eykst almennt eftir því sem hagvöxtur eykst. Við sjáum mjög mikla aukningu. Til viðbótar við það má finna í ríkisfjármálaáætlun áætlanir sem snúa að uppbyggingu á Landspítalanum við Hringbraut. Þar verður nýtt sjúkrahótel opnað í ár. Einnig er gert ráð fyrir að hefja framkvæmdir við nýjan meðferðarkjarna árið 2019. Í dag hafa svo dúndrast út frá borgarstjóra fréttatilkynningar í gríð og erg um mikla fjölgun íbúa hér og þéttingu byggðar.

Ég velti því einfaldlega fyrir mér hvernig í ósköpunum fólk eigi að komast hér um ef ekki verður farið í meiri háttar samgöngubætur hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég spyr ráðherrann einfaldlega: Hvað má finna í þessari ríkisfjármálaáætlun sem snýr að því að bæta umferðina og létta á álaginu sem er nú þegar á umferðaræðar hér á höfuðborgarsvæðinu?