146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:15]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Það kemur margt ágætt frá Brussel eins og við í Viðreisn höfum sagt. Eitt af því ágæta frelsi sem þaðan kemur og hefur rignt yfir gjörvalla Evrópu er frelsi í póstflutningum sem við á Íslandi höfum farið á mis við þangað til nú því nú á að verða breyting þar á sem er fagnaðarefni. Við fögnum því sérstaklega.

Hér í fjarskiptakaflanum, í markmiði 3, segir, með leyfi forseta:

„Aðgengi að alþjónustu í pósti tryggt og afnám einkaréttar.“

Planið er að árið 2018 verði alþjónusta tryggð á hagkvæmasta máta og 2022 verði hún tryggð án ríkisstyrkja.

Ég vil vekja athygli á þessu vegna þess að mér finnst ágætt í þessari umræðu að vekja líka athygli á hlutum sem hugsanlega kosta lítið sem ekkert en geta engu að síður gert líf okkar betra með betri tækni og því að nota hinn frjálsa markað.

Mig langar að spyrja aðeins um hugmyndir ráðherra um næstu skref í þessum efnum, sérstaklega með tilliti til afkomu ríkissjóðs og þátt ríkissjóðs í því. Hér segir um aðgerðir á bls. 207, aðgerð nr. 4: „Afnám einkaréttar á póstmarkaði og trygging alþjónustu.“ Kostnaður við það árið 2022 verði 0 kr. sem er í takti við að alþjónusta verði tryggð án ríkisstyrkja en fram að því eru ekki frekari upplýsingar um hvernig eigi að hátta þeim málum. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann sjái fyrir sér næstu skref í þeim málum sem lúta að afnámi einokunar á póstmarkaði, sérstaklega með tilliti til fjármála ríkisins.