146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:24]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar að halda áfram með umræðu um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Ég er að velta þeim fyrir mér.

Á sama tíma og ég er þingmaður fyrir Suðvesturkjördæmi hef ég töluverðar áhyggjur af þenslu á höfuðborgarsvæðinu. Sveitarstjórnir eru að fá tilboð í framkvæmdir sem eru oft þessa dagana 50 og upp í 150% yfir kostnaðaráætlun eftir útboð. Það gerist nánast í hverri viku, hvort sem það er malbikun eða aðrar framkvæmdir. Fáir bjóða í og samkvæmt minni húsmæðrahagfræði ættu opinberir aðilar ekki að vera í miklum framkvæmdum á slíkum svæðum.

Þegar kemur að framtíðarsýn málefnasviðsins samgangna kemur fram að það er vilji til að eiga samstarf við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um borgarlínuna. Þá velti ég fyrir mér þeim mælikvörðum sem var minnst á áðan, mælikvarði númer 4. Mig langar til að spyrja hv. ráðherra um borgarlínuna út frá þeim mælanlegu markmiðum sem koma fram í lið 4. Mælikvarðinn er eiginlega fjöldi innstiga. 2016 voru þetta 13 milljónir innstiga sem fara í 18 milljónir innstiga 2022. Þetta er langtímaáætlun. Nú eru sveitarfélögin komin með þetta verkefni á fullt varðandi borgarlínuna. Lýsing á svæðisskipulaginu er komin í auglýsingu.

Ég hef áhuga á að vita hvort gert sé ráð fyrir borgarlínunni í þessum mælanlegu markmiðum 2022, 18 milljónir innstiga.