146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:38]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Langflestir af þeim 2,4 milljónum gesta sem heimsækja Ísland á þessu ári, að talið verði, koma með flugi. Hæstv. ráðherra drap stuttlega á það áðan að flugvellir í landinu væru vanræktir og þeim lítið haldið við. Er hæstv. ráðherra tilbúinn að opna fyrir umræðu um það að við þróum flugvellina í landsfjórðungunum til að geta gegnt millilandaflugi í einhverjum mæli fyrir túrista, til að dreifa túristum um landið, og í annan stað til að annast ferskflutning til útlanda á fiski?

Síðan langar mig að nefna — það er mjög stuttur tíminn — að fram hefur komið að skipaður hefur verið starfshópur til að endurskoða ýmsa þætti vegamála, m.a. vegtolla. Sér ráðherra fyrir sér að þau atriði sem til skoðunar eru muni hugsanlega hafa áhrif á þróun í tekjum og gjöldum í samgöngumálum á tímabilinu? Við höfum upplifað miklar breytingar í upplýsingatækni, lausnum í bílum og í umhverfinu, hvort hann sé með það í huga að innheimta t.d. bifreiðagjöld meira með þeim hætti að þeir borgi sem noti.

Annað í lokin, hæstv. ráðherra. Hagnaður Spalar sem rekur Hvalfjarðargöng og á þau var 635 milljónir á síðasta ári. Þau verða afhent okkur sameiginlega, ríkinu, á næsta ári. Má ekki treysta því að þau verði gjaldfrjáls að öllu óbreyttu? Er að einhverju leyti tekið tillit til þess væna (Forseti hringir.) heimanmundar í fjármálaáætluninni?