146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:40]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Við höfum í raun þrjá eða fjóra flugvelli í dag sem geta með góðu móti tekið á móti bæði farþega- og fragtflugi, auknu. Ég held að markaðurinn hljóti svolítið að ráða þessu. Menn hafa verið að reyna að ýta undir það að Akureyrarflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur verði notaðir meira í beinu millilandaflugi. Vissulega ber maður þá von í brjósti að af því geti orðið. Það eru síðan miklar breytingar í atvinnulífi, t.d. á Vestfjörðum, sem að mínu mati geta kallað á það að menn þurfi á næstu árum, þó að það sé kannski ekki alveg á næstunni, að skoða einhverjar mögulegar breytingar í þeim efnum.

Já, það mun auðvitað hafa áhrif á þróun í tekjum ef farið verður í frekari samfjármögnun í vegakerfinu og teknir upp vegtollar. Það er alveg ljóst. Það mun hafa að mínu mati þau áhrif að hægt verður að fara af miklum krafti í þau verkefni sem þar verða undir, sem verða þá fjármögnuð til að verða endurgreidd á nokkuð mörgum árum, eins og við þekkjum svo vel úr Hvalfjarðargöngunum. Fjármögnun þessara brýnu verkefna sem eru undir í þessari skoðun er þá ekki að taka fé úr ríkissjóði sem nýtist þá í önnur verkefni.

Það hafa einnig komið upp víða um land skoðanir í þeim efnum að ástæða sé til að skoða þessa veggjaldainnheimtu víðar. Til að mynda hafa fulltrúar sveitarfélaga nokkuð víða af landsbyggðinni komið til fundar við mig og komið þeim sjónarmiðum á framfæri að ef það megi hraða framkvæmdum á þeirra svæðum þá sé fólk tilbúið til þess að skoða slíkar leiðir. Ég held að við eigum að stíga þessi skref varlega og þróa okkur með einhverri aðferð og byrja einhvers staðar.

Hvort við munum síðan hætta innheimtu í Hvalfjarðargöngunum þegar tekið verður við þeim á næsta ári, það hefur svo sem ekki verið tekin nein ákvörðun um það. (Forseti hringir.) En í mínum huga ef ekki er áframhaldandi uppbygging á þeirri leið sem þessu tengist, þá er engin réttlæting þar (Forseti hringir.) fyrir innheimtu umfram annars staðar.