146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:57]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Frú forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að lýsa áhyggjum mínum af útgjaldarammanum, um 300 millj. kr. aukning á tímabilinu 2018–2022, sjávarútvegur og fiskeldi, eru hvort um sig mjög stór málefnasvið. Annað er gamalreynd og traust stoð í samfélagi okkar, en fiskeldi er ný og sívaxandi grein. Áhyggjur mínar kristallast í því að rannsóknum sem gerðar hafa verið til áratuga á sviði hafrannsókna hefur nú verið skeytt saman við allt of víðtæka rannsóknarvinnu sem fara þarf fram í tengslum við fiskeldi. Sundurliðunin sem tengist markmiði I, um aukið umfang rannsóknar og nýsköpunar á tímabilinu, tekur fram að 525 millj. kr. verði varið til rannsókna á vistkerfi hafsins og þar undir hagnýtingar villtra stofna og umhverfisþátta og svo uppbyggingu fiskeldis. Það eru háleit markmið, forseti, en ég óttast að með svolítilli hnikun innan rammans, um 105 millj. kr. á ári, verði eitthvað af þessum rannsóknum vanrækt. Til samanburðar má geta þess að útflutningsverðmæti fyrir allt að 265 milljarða hljótast af sjávarútvegi á ársgrundvelli, 8,1% af vergri landsframleiðslu. Hvernig má það vera að framsókn til flokksins innan ramma sé einvörðungu um 5,4% aukning?

Skemmst er að minnast loðnuleitar sem fram fór nýverið, en hún var kostuð af útgerðinni sjálfri. Við búum við hlýnun jarðar, hún er staðreynd. Jafnframt erum við á því svæði þar sem kuldapollur myndast á meðan jörðin hitnar allt í kring. Við stöndum á tímamótum en við ætlum ekki að kosta nægilegu til rannsókna. Súrnun sjávar er svo annað alvarlegt málefni sem við þurfum að taka föstum tökum.

Miðað við að þetta er næststærsta atvinnugrein Íslendinga og jafnframt arðvænlegasti vaxtarsproti ríkisstjórnarinnar vekur það mér mikla furðu að við ætlum ekki að fjárfesta í þekkingu. Við ætlum raunar að sleppa eins billega frá því og mögulegt er.

Forseti. Ég tel að þessar áætlanir séu álíka skynsamlegar og að sleppa námi til þess að spara námslánin. Því spyr ég hæstv. sjávarútvegsráðherra: Telur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að nægilega miklu sé til kostað til þess að ekkert þurfi að sitja á hakanum? Telur ráðherrann jafnframt (Forseti hringir.) að núverandi skipakostur Hafrannsóknarstofnunar (Forseti hringir.) sé fullnægjandi þegar nýja skipið (Forseti hringir.) er 18 ára gamalt?