146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:16]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Ég vona nú að hæstv. ráðherra hafi orðið á mismæli þegar hún sagði það vera rómantík að halda landinu í byggð. Ég vona að það sé stefna ríkisstjórnarinnar að halda landinu í byggð þó að þess sjáist kannski ekki mjög skýr staður í fjármálaáætlun.

Hæstv. ráðherra ræddi aðeins um búvörusamninginn. Þegar maður skoðar landbúnaðarkaflann, af því að þetta er nú fjármálaáætlunarumræða, þá eru þar mörg verkefni og mjög fín. Ég tek undir það með ráðherranum að mikilvægt er að endurskoða fyrirkomulag áhættumats og auka vöktun á ýmsum áhættuþáttum og fjármunir eru settir í það. Að öðru leyti er algengast að sagt sé að forgangsraðað verði innan ramma sem er svolítið erfitt í landbúnaðarkaflanum þar sem búvörusamningarnir eru langstærstir og þeir dragast saman, það er því erfitt að sjá hvaða svigrúm er í rammanum hjá ráðherra á hverjum tíma. Í þessum „vonda“ búvörusamningi, sem ráðherra hnýtir oft í, tek ég eftir hinu glæsilega verkefni sem skrifað var undir, samningur við Landgræðsluna og sauðfjárbændur; það var einmitt verkefni úr búvörusamningnum og það er fjármagnað á grundvelli hans, það stendur hér á bls. 213. En það er erfitt að átta sig á því nákvæmlega hvaða fjármuni ráðherrann hefur.

Varðandi sjávarútveginn á það sama við, þar eru allflest verkefni nema eitt sem var fjármagnað samkvæmt síðustu fjármálaáætlun, og svo eru það 525 milljónir á fimm árum, eða 100 milljónir á ári. Mér sýnist að rammi ráðuneytisins sé að vaxa um 65 milljónir á ári að undanskildu árinu 2018–2019 þegar hann eykst um 135 milljónir. En vegna 2% aðhaldskröfunnar lækkar ramminn aftur um 128 milljónir, þannig að það er ekki mikil aukning. Á hinum árunum er 65 milljóna aukning á ári (Forseti hringir.) en 2% aðhaldskrafa upp á 120–130 milljónir á hverju ári og ég tek undir með hæstv. ráðherra þegar hann sagði að svigrúmið væri kannski ekki mikið en það færi til Hafró. (Forseti hringir.) Þá er spurningin: Hvað með öll hin verkefnin sem stendur að eigi að forgangsraða innan ramma? Það verður ekki mikið eftir í þau.