146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:31]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Frú forseti. Varðandi innflutningskvótana breytast þær reglur ekki fyrr en væntanlega um næstu áramót. Við gerðum ráð fyrir að Evrópusambandið myndi samþykkja innflutningskvóta núna í apríl/mars sem myndu taka gildi strax í sumar en ég hef fengið fréttir af því að Evrópusambandið muni ekki klára þetta mál fyrr en seinni part þessa árs sem þýðir að við stöndum frammi fyrir raunverulegum breytingum um næstu áramót. Það þýðir aukið svigrúm fyrir okkur í ráðuneytinu til þess að fara yfir nýtt fyrirkomulag. Þetta er ekkert auðvelt. Það er ekki hægt að finna einu réttu lausnina sem passar neytendum, passar framleiðendum og innflytjendum og bændum. En við höfum sem betur fer meiri tíma til þess að skoða fyrirkomulagið. Leiðarljós mitt varðandi innflutningskvótana er að tryggja rétt neytenda, meira vöruúrval og frelsi og það eigum við alveg að geta gert.

Í sambandi við samkeppni í mjólkuriðnaði eða samkeppnisleysi í mjólkuriðnaði lagði ég, eins og kunnugt er, í ljósi opinnar gegnsærrar upplýstrar stjórnsýslu, fram drög að frumvarpi á vef ráðuneytisins sem afnemur undanþágu eða sérreglu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum. Það fór til umsagnar og voru viðbrögðin misjöfn. Sumum fannst ég ekki ganga nógu langt meðan aðrir voru ekkert óeðlilega hoppandi brjálaðir yfir tillögunni, en við höldum áfram og ætlum að vanda okkur. Það sem þarf að gæta að þegar við förum yfir þessar ábendingar er að söfnun mjólkur alls staðar sé tryggð. Það þarf að passa upp á byggðafestu. Ég sé fram á að söfnun mjólkur verði undanþegin samkeppnislögum af því að byggðafestan, það að geta sótt mjólk hvar sem er á landinu án tillits til kostnaðar, skiptir máli upp á landið okkar, upp á samfélagslega ábyrgð. Síðan er það aðgangurinn að hrámjólkinni, að hann sé jafn, (Forseti hringir.) til þess að stuðla að nýliðun í greininni.

Þetta eru þeir þættir sem við þurfum að hafa í huga þegar við skoðum þessar breytingar. (Forseti hringir.) Ég hyggst leggja fram frumvarp um þessi mál á næsta haustþingi. (Forseti hringir.) Við munum í millitíðinni fara yfir þær ábendingar og athugasemdir sem hafa borist.