146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:01]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Mig langar að bæta við varðandi hjúkrunarheimilin og spyrja í því sambandi hvort gert sé ráð fyrir að sú bráðabirgðaráðstöfun sem verið hefur við lýði núna, að taka fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra til rekstrar, verði hætt á tímabilinu eða hvort fyrirhugað sé að halda henni áfram.

Svo aðeins meira varðandi stóru myndina. Þegar búið er að taka frá það sem fer í byggingu Landspítalans er talað um að 7,3 milljarðar verði eftir í annað. Þar er, eins og ég nefndi hér áðan, ýmislegt gert til þess að stytta biðlista o.s.frv. Telur ráðherrann líklegt að svigrúm verði til þess að lækka kostnaðarþátttöku sjúklinga í kerfinu? Það er mjög almennum orðum farið um það í áætluninni, að alltaf verði tekið mið af því þegar fram vindur hvort það sé hægt. Ég vil spyrja ráðherra: Telur ráðherra það hreinlega líklegt að það náist að gera það innan svigrúmsins?

Að lokum, frú forseti. Er svigrúm innan áætlunarinnar til þess að mæta þörfum Sjúkrahússins á Akureyri fyrir nýja legudeildarálmu sem ætlað er að bæta úr óviðunandi aðbúnaði fyrir geðdeildarstarfsemi og fleiri þætti í starfseminni þar? Hver er afstaða ráðherrans til málsins með hliðsjón af því að Sjúkrahúsið á Akureyri er skilgreint sem annað af tveimur sérgreinasjúkrahúsunum á landinu?