146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:04]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir góðar spurningar. Gert er ráð fyrir því að það rúmist inni í áætluninni að láta af þeim ósið að færa fé úr sjóðnum til rekstrar hjúkrunarheimilanna. Hvort við náum að snúa því alla leið er aðeins óljóst enn þá, en við munum alla vega gera okkar besta. Gert er ráð fyrir fé til þess. Sömuleiðis er búið að úthluta eða gert ráð fyrir því í áætluninni að talsverðir fjármunir fari í að lækka kostnaðarþátttöku sjúklinga. Það er hins vegar ekki búið að útfæra hvernig það mun ganga eða hvaða áherslur verða þar. Þegar kemur að kostnaðarþátttöku sjúklinga eru náttúrlega stóru fréttirnar þær gríðarlega miklu breytingar sem verða núna í maí með nýju greiðsluþátttökukerfi. Ég reikna með því að reynslan af þeirri innleiðingu muni að einhverju leyti stýra því hvaða áherslur við leggjum í næstu skrefum til þess að lækka kostnaðarþátttöku sjúklinga.

Varðandi nýja legudeild á Akureyri þá minntist ég á það á hlaupum í framsögu minni að gert væri ráð fyrir því að hafinn yrði undirbúningur að byggingu nýrrar legudeildar á Akureyri á seinni hluta tímabilsins. Sú framkvæmd verður ekki kláruð á tímabilinu miðað við áætlunina eins og hún er núna, en gert er ráð fyrir því að hefja þá vinnu þá. Af því að hv. þingmaður spurði sérstaklega um skoðun mína í því efni tel ég að mjög mikilvægt og faglegt starf sé unnið á sjúkrahúsinu á Akureyri. Ég held að það sé mjög mikilvægt (Forseti hringir.) að það sé styrkt áfram, bæði fyrir Norðlendinga, en líka sem hluti af sérhæfða (Forseti hringir.) sjúkrahúskerfinu okkar.