146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:08]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að gera persónu mína að aðalatriði í ræðu sinni. Ég verð að bregðast við því á einhvern hátt. Ég vil segja að þær árásir og það sem sagt hefur verið um persónulega þátttöku mína eða Bjartrar framtíðar í þessari ríkisstjórn hefur verið á ýmsan veg. Ég vil taka fram að það er rétt hjá hv. þingmanni að ég tel ekki að ég hafi selt sál mína fyrir ráðherrastól eða þátttöku í þessari ríkisstjórn, þvert á móti lít ég á það sem mikilvægt hlutverk okkar sem störfum í stjórnmálum að axla ábyrgð, að við lítum á ábyrgðarstörf okkar, hvort sem þau eru hér á þingi eða á ráðherrastóli, sem þjónustustarf fyrir almenning og fyrir þann almenning sem kaus okkur samkvæmt því lýðræðislega kerfi sem er við lýði í þessu landi.

Ég get ekki tekið undir orð hv. þingmanns um að sú ríkisstjórn sem hér leggur fram fjármálaáætlun sé vond öfgastjórn, þvert á móti. Hér er lögð fram fjármálaáætlun til fimm ára sem er í takt við áherslur Bjartrar framtíðar í pólitík um langtímahugsun, um meðalhóf. Það er bæði verið að leggja fram áætlun og fjármálastefnu sem var samþykkt í dag sem hefur mildandi áhrif á þenslu og íslenskt efnahagslíf. Sömuleiðis er verið að auka útgjöld, varlega þó, og þá með sérstakri forgangsröðun til velferðarmála og ekki síst heilbrigðismála sem sjá hvað mesta áherslu í auknum útgjöldum í fjármálaáætluninni.

Ég er ekki sammála hv. þingmanni þegar hann talar um að allt sé á leið til verri vegar. Ég er þvert á móti frekar ánægður með þessa fjármálaáætlun þó svo að ég hefði sem fagráðherra vissulega verið ánægður með meira fé til míns málaflokks.