149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

fullgilding á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands.

499. mál
[11:58]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður vekur oft athygli á ýmsum þáttum sem mér finnst skipta máli. Ég ætla ekki að fara í smæstu þætti en tek svona stóru línuna í því sem snertir, getum við sagt, upplýsingaöryggi, netöryggi og annað slíkt. Þetta hefur miklu fleiri víddir en við, sem erum ekki sérfræðingar á sviðinu, eins og hv. þingmaður er að mörgu leyti, áttum okkur á.

Hv. þingmaður vísar til mikilla breytinga á skömmum tíma. Hafnir eða landsvæði eða eitthvað slíkt, það er svo áþreifanlegt. Upplýsingaflæði er ekki jafn áþreifanlegt fyrirbrigði, upplýsingar er hægt að veita og matreiða með ýmsum hætti. Svo skiptir máli hvernig þær eru margfaldaðar á alheimsvefnum og samskiptamiðlum og öðru slíku. Það hefur líka áhrif að óprúttnir aðilar, það þurfa ekki að vera ríki, geta njósnað um fólk með ákveðnum hætti, með ákveðnum tækjum o.s.frv. Þetta er algjörlega ný ógn. Við ólumst upp við vöruviðskipti sem eru svona grunnurinn að þessu en svo komu meiri þjónustuviðskipti. Nú er þetta að fara mjög hratt í þessa áttina.

Þetta er eitt af því sem við höfum verið að horfa til þegar kemur að þjóðaröryggisstefnu okkar. Það tengist auðvitað öllu. Það er líka eitt þegar kemur að fríverslunarsamningunum: Þeir eru bara hluti af þessu. Almenningur getur almennt farið og keypt allt milli himins og jarðar með tiltölulega einföldum hætti á netinu, án þess að stjórnvöld hafi gert neina samninga þar um. Það mun bara verða auðveldara.

Það er líka oft þunn lína á milli ritskoðunar og öryggismála. Það er ekki svo gott að sannleikurinn sé algildur alls staðar, að allt sé bara svart og hvítt, ekki neitt grátt.

Hins vegar er þetta mál sem við eigum að líta sérstaklega til alls staðar. Ég hef (Forseti hringir.) meira litið á þetta á sviði þjóðaröryggismála, þegar maður sér þróunina þar. En hlutirnir tengjast og þetta er ekki allt saman klippt og skorið.