149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

Bankasýsla ríkisins.

412. mál
[12:50]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. Óla Björns Kárasonar er ég á nefndarálitinu og styð því auðvitað framgang málsins. Ég vildi hins vegar vekja athygli á því að við höfum verið að framlengja og vasast með tilvist Bankasýslunnar um allnokkurt skeið. Ég held að það sé löngu orðið tímabært að taka afstöðu til þessarar spurningar: Er þörf á ríkisstofnun til þess að halda utan um hlutabréf þó að í fjármálafyrirtækjum sé?

Kannski er ekkert síður viðeigandi að fara að skoða það alvarlega hvernig framtíðarfyrirkomulag á þessu eigi að vera. Það er alveg ljóst að það virðist ætla að verða talsvert lengra í sölu á hlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum en upphaflega var að stefnt. Þetta átti að vera bráðabirgðaráðstöfun. Það var aldrei hugsunin að ríkið héldi mjög lengi á svona umfangsmiklum hlutum í kerfinu og auðvitað kemur eignarhluturinn í Íslandsbanka til eftir tilurð Bankasýslunnar.

Ég held að þetta sé óþarft fyrirkomulag. Það sé óþarfi að reka heila opinbera stofnun utan um eignarhald á bönkunum eða það hlutverk eitt í raun og veru að halda á hlutabréfum og móta einhvers konar eigandastefnu ríkissjóðs. Ég held að við eigum að taka þetta til endurskoðunar, sérstaklega af því að ég óttast með stefnu núverandi ríkisstjórnar að það verði ekkert gert í sölu fjármálafyrirtækja á þessu kjörtímabili. Það virðist ekki vera nein samstaða um það og forsætisráðherra og fjármálaráðherra eru mjög misvísandi í sínum yfirlýsingum. Það væri því ágætt og ég hvet til þess að það verði farið að huga að framtíðarfyrirkomulagi þessara mála þannig að við stöndum ekki til lengdar að rekstri sjálfstæðrar ríkisstofnunar til að halda á hlutabréfum.