150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Undanfarið hafa verið þættir í sjónvarpinu um sögu Siglufjarðar og það ævintýri sem fólst í síldarævintýri á síðustu öld, 60 ára sögu þess ævintýris á þeim stað. Í síðasta þættinum var farið vel yfir það hvernig bærinn væri að ná endurnýjun lífdaga eftir mjög mögur ár upp úr 1970. Það má glögglega sjá hvað samgöngur skipta rosalega miklu máli í því sambandi, með Strákagöngunum sem voru opnuð 1970 og síðan Héðinsfjarðargöngum 2010. Þannig að bærinn er aftur kominn á kortið sem frambærilegur bær með góða ferðaþjónustu. Í mínum huga er þar aðallega hægt að benda á góðar samgöngur.

Því er ég að tala um þetta? Jú, það er vegur fyrir vestan, á Vesturlandi, Skógarstrandarvegur fyrir austan Stykkishólm og inn í Búðardal, sem er í mínum huga sorglegt að skuli ekki vera inni á samgönguáætlun, hann var tekinn út af samgönguáætlun nú síðast. Fulltrúar Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi og bæjarstjórinn í Stykkishólmi komu á fund umhverfis- og samgöngunefndar í morgun til að brýna fyrir nefndarfulltrúum að gera allt til að fá þennan veg aftur inn á samgönguáætlun. Þetta er malarvegur þar sem slysatíðni er mjög há og er mikill flöskuháls í samgöngum fyrir austan Stykkishólm og inn í Dali. Ferðamenn fara þennan veg vegna þess að GPS-tækið þeirra leiðir þá á þennan veg, en þarna er allt of mikið um slys. Þungaflutningar eru þarna of miklir og vegurinn ber þá bara alls ekki uppi. Þannig að samgöngur skipta gríðarlegu máli og því verðum við að koma þessum vegi í stand alveg eins og öllum öðrum vegum sem eru í niðurníðslu.