150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

viðgerðir á jarðvegsrofi vegna utanvegaaksturs utan þjóðgarða.

126. mál
[16:57]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég ímynda mér að við hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson séum sammála um að best væri að þessi sjóður þyrfti ekki að vera til vegna þess að slíkar skemmdir væru ekki unnar, en þær eru unnar og stundum eru menn gómaðir og sektaðir. Þær sektir renna eins og er ekki beint í þessar viðgerðir. Stundum sleppa menn alfarið, stundum er búin til einhver regla og menn meta umfang skemmda og þeir sem nást sektaðir. Það er eitthvert jafnaðargjald. Það er allt reynt til að ná inn peningum frá þeim sem þó valda skemmdunum til að laga.

Ég get alveg tekið undir að það er nauðsynlegt í þessu máli að hafa yfirsýn yfir umfangið. Þessar upplýsingar hljóta að liggja hjá til þess bærum aðilum í ráðuneytinu og af því að við hv. þingmaður erum bæði nefndarmenn í umhverfis- og samgöngunefnd þangað sem málið fer vonandi til afgreiðslu er kannski eitt af því fyrsta sem við gerum að biðja um minnisblað úr ráðuneytinu ef það getur komið málinu áfram. Þrátt fyrir að við séum á betri stað en við vorum fyrir einhverjum árum og áratugum og þrátt fyrir að ég hafi án nokkurs vafa ferðast minna um hálendið en hv. þingmaður hef ég séð slík ummerki eftir utanvegaakstur að mér svíður. Það svíður að í einhverjum tilfellum skuli menn ekki hafa verið sektaðir en það svíður næstum því meira að í þeim tilfellum sem menn hafa verið sektaðir hefur samt ekki verið farið í úrbætur vegna þess að peningarnir hafa farið annað. Það er það sem þessu máli er gert að vinna bót á, að reyna að tryggja að við lögum hlutina.