150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

rafræn birting álagningarskrár.

110. mál
[17:18]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður talaði hérna um launaviðtöl sem störukeppni, ég held að það sé ágæt lýsing. En þetta er mjög ójöfn störukeppni að því leytinu til að launagreiðandinn veit hvað allir hjá fyrirtækinu eru með í laun á meðan sá sem er að biðja um hærri laun er kannski bara að giska, veit ekki hver staðan er. Að því leytinu held ég að þetta geti einmitt leitt til einhverrar skekkju í launasetningu innan fyrirtækisins og þá má alveg velta því fyrir sér hvaða hópar eru líklegastir til að sitja eftir í launaþróun. Það gæti verið að hluti af kynbundnum launamun innan fyrirtækja leynist í svona huliðshjúp utan um þessa störukeppni.

Af því að ég nefndi vefinn tekjusagan.is í flutningsræðu minni þá rifjaðist upp fyrir mér að eftir að hann fór í loftið fletti kona, sem hafði samband við mig, upp öllum starfsmönnum vinnustaðarins sem hún vann hjá og komst að því að hún var bara talsvert lægri í launum en karlarnir sem unnu á sama stað í skipuritinu innan fyrirtækisins. Þetta vissi hún ekki þegar hún fór inn í launaviðtal stuttu áður. Með réttu hefði hún átt að vera á sama stað og þeir. Hefði hún getað flett þeim upp á vef skattsins áður en hún fór í launaviðtalið hefði hún verið nestuð í samtalið við launagreiðandann, hefði getað sagt: Ég veit að þeir eru með þessi laun og mér finnst sanngjarnt að ég sé færð upp til jafns við þá. Og ekki græddi fyrirtækið á þessu af því að þetta var eitt af því sem varð þess valdandi að hún hætti störfum þar.