150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

rafræn birting álagningarskrár.

110. mál
[17:20]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta framsögu á þessu ágæta máli sem fer ágætlega saman við sýn mína á þessi mál, að þetta eigi allt að vera opið. Mig langar að nýta tækifærið og spyrja hv. þingmann út í tvö þó mjög skyld atriði. Ég hjó eftir í máli hv. þingmanns að fram kom að í uppflettingum á væntanlega rafrænni skattskrá, eða hvað það mun nú heita, fengi viðkomandi alltaf að vita hver hefði flett upp, ekki síst til að koma í veg fyrir mögulega misnotkun. Mig langaði að biðja hv. þingmann að fara aðeins nánar út í það hvaða misnotkun er möguleg á þessu. Það er vel ef þessi aðferð kemur í veg fyrir hana, en ef hann gæti útskýrt aðeins betur í hverju sú mögulega misnotkun er fólgin. Því tengt, þó að vissulega gæti ég nú notað leitarvélar til að ná í þær upplýsingar en ég þykist vita að hv. þingmaður sé vel inni í þessum málum: Hvernig er fyrirkomulagið núna varðandi prentuðu álagningarskrána? Liggur hún opin, þarf að skrá sig sérstaklega inn? Væntanlega er þá ekki hægt að láta vita af því að það sé verið að fletta einhverjum sérstaklega upp því að þar er verið að skoða þetta í heild, og hvort að breytingin gæti kannski orðið til þess að notkunarmöguleikarnir rýmkist ekki heldur þrengist. Ekki að ég sé að segja að það sé endilega slæmt, en ég velti þessu fyrir mér.