150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

meðferð sakamála.

140. mál
[18:21]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum, bann við myndatökum og hljóðupptökum í dómhúsum. Auk þess sem hér stendur eru flutningsmenn hv. þingmenn Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Sigurður Páll Jónsson.

Þetta frumvarp var fyrst lagt fram á 141. löggjafarþingi og endurflutt með nokkrum breytingum á 149. löggjafarþingi. Það er nú lagt fram að nýju með nokkrum breytingum með hliðsjón af lögum nr. 76/2019, um breytingu á lögum um meðferð einkamála, lögum um meðferð sakamála og fleiri lögum sem varða málsmeðferðarreglur og fleira.

Mig langar, frú forseti, að gera grein fyrir því í hverju þessi lagabreyting er fólgin. Það segir hér í einu eiginlegu efnisgrein frumvarpsins, með leyfi forseta:

„1. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:

Óheimilt er öðrum en dómstólum að hljóðrita eða taka myndir í þinghaldi eða í dómhúsum. Jafnframt er óheimilt að streyma hljóði eða mynd úr þinghaldi eða greina frá því sem sakborningur eða vitni skýrir frá við skýrslutöku meðan á henni stendur. Dómari getur veitt undanþágu frá banni við öllu framangreindu ef sérstaklega stendur á, enda sé þess gætt að myndatökum og hljóðupptökum verði ekki beint að aðilum dómsmáls án samþykkis þeirra. Ef tekið hefur verið upp hljóð eða teknar myndir í þinghaldi án leyfis dómara er óheimilt að birta þær hljóðupptökur eða myndir. Sama gildir um birtingu hljóð- og myndupptakna af munnlegum framburði sem dómstóll hefur annast. Einnig eru óheimilar myndatökur og hljóðupptökur af sakborningum, brotaþolum eða vitnum á leið í dómhús eða frá því án samþykkis þeirra.“

Það er sem sagt verið að víkka gildissvið 1. mgr. 11. gr. laga um meðferð sakamála, að það sé hvorki verið að taka upp myndir né hljóð af aðilum að sakamálum sem eru á leið í dómhús eða frá því án þeirra samþykkis. Þetta ákvæði er að norskri og danskri fyrirmynd. Ákvæðinu er ekki ætlað að ná til myndatöku og hljóðritunar sem fer fram á vegum dómstólsins sjálfs og eru þar hafðar í huga þær upptökur sem eru eðlilegar við rekstur dómsmálsins, hvort sem er hljóðritun á framburði vitna og hefðbundin notkun öryggismyndavéla. Þá er gert ráð fyrir því að dómari geti heimilað myndatöku og hljóðritun með sérstöku leyfi og er þar átt við upptökur er ekki snerta aðila máls sem eru í dómhúsinu vegna málsins. Má hér hugsa sér myndatöku vegna almennrar fréttar um dómstólinn eða viðtals við dómara o.s.frv.

Frú forseti. Hvers vegna er frumvarpið sett fram? Jú, það er sett fram vegna þess að þær myndatökur sem við sjáum og jafnvel hljóðupptökur sem gerðar hafa verið í og við dómhús beinast einkum að þeim aðilum sem þangað eiga leið vegna aðildar sinnar að máli. Það geta verið vitni eins og hér hefur komið fram. Það geta verið grunaðir aðilar og/eða meintir sakborningar. Þetta getur verið mjög íþyngjandi fyrir þá sem eru og ég ítreka meintir sakborningar, þeir eru undirseldir því að teknar séu myndir af þeim á leið inn í dómsali eða dómhús. Það getur raskað einkalífi þeirra og þetta getur komið illa við þá sem t.d. reynast síðan saklausir. Það getur verið að þá sé almenningsálitið búið að búa sér til þá mynd af viðkomandi að hann sé sekur. Hin hliðin á sama peningi er sú að þess hefur orðið vart að þeir sem ítrekað hafa brotið af sér og hafa ítrekað sætt refsingum, það virðist vera orðinn einhvers konar „status“ fyrir slíka aðila að birtar séu af þeim myndir þegar þeir eru á leið til dómhúss eða frá því. Þetta hefur sést mjög lengi.

Einn ljóður á slíkum myndum sem birtast nú þegar í íslenskum fjölmiðlum, t.d. í sjónvarpi, er að þar eru andlit löggæslumanna sýnileg. Myndatakan ætti þá í sjálfu sér að vera rugluð að því leyti til að ekki væri hægt að bera kennsl á þá löggæslumenn sem eru að færa hvort sem er brotamenn, vitni eða aðra á milli staða að og frá dómhúsi.

Á sínum tíma þegar sá sem hér stendur, framsögumaður þessa máls, undirbjó það hið fyrsta skipti man ég eftir því að málsmetandi lögmenn voru mjög áfram um að þetta ákvæði yrði sett. En það vakti hins vegar takmarkaða hrifningu hjá blaðamannastéttinni og að vonum. En nú er það þannig, frú forseti, eins og við vitum öll, að við erum útsett fyrir myndatökum og hljóðupptökum nánast hvar sem við erum, almennir borgarar í landinu. Þarna er kannski tilraun gerð til þess að draga nokkuð úr því áreiti sem sú, má ég segja ágenga fréttamennska sem nú er stunduð hefur í för með sér. Það er ekki bara tekin mynd af einhverjum og hún birtist í blaði daginn eftir eða daginn þar á eftir, heldur eru menn nánast í beinni útsendingu, annaðhvort á vefveitum eða stærri fréttaveitum. Ég ítreka að slík umfjöllun getur reynst afdrifarík og íþyngjandi fyrir þá sem fyrir henni verða. Ef við myndum vega saman rétt almennings til frétta og upplýsinga um hvaðeina og rétt þeirra sem eru fréttaefni til einkalífs og virðingu fyrir þeirra persónu, þá myndi alla vega sá sem hér stendur taka málstað þeirra síðarnefndu. Og ég segi aftur að við þekkjum dæmi þess að einkalíf manna og líf manna hefur beðið hnekki vegna þess að myndir hafa verið teknar af þeim í slíku umhverfi.

Ég vitna aftur til þess að í dönskum réttarfarslögum er meginreglan sú að hljóðritun eða myndatökur eru bannaðar og enn fremur myndatökur í dómhúsum nema með sérstöku leyfi. Ákvæðum í norskum dómstólalögum svipar nokkuð til dönsku reglnanna. Myndatökur og hljóðritanir í þinghaldi í sakamálum eru bannaðar og einnig er bannað að hljóðrita eða taka myndir af sakborningi á leið til eða frá þinghaldi eða í dómhúsi því þar sem þinghald fer fram.

Meginreglan er sú, eins og við vitum, að þinghöld skuli háð í heyranda hljóði, samanber 10. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Sú regla er ekki skert með því að banna myndatökur af aðilum máls inn í dómhúsið eða nálægt því eins og tíðkast í Danmörku og Noregi. Sú takmörkun sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu gengur ekki of nærri meginreglunni um opin þinghöld að mati flutningsmanna enda er ekki verið að takmarka möguleika fjölmiðla eða annarra til að sækja þinghald og fylgjast með því sem þar fer fram. Þvert á móti verður aðgangur áfram opinn og fjölmiðlum frjálst að fylgjast með og greina frá framgangi dómsmála. Þá er ekki heldur verið að auka heimildir dómara til að mæla fyrir um að þinghald fari fram fyrir luktum dyrum.

Þetta er í örstuttu máli, frú forseti, greinargerð um það um hvað frumvarpið er, hver tilgangur þess er og hvaða nauðsyn er á því að það verði tekið til efnislegrar meðferðar á þingi eins og hér er hafið og fái vandaða meðferð í nefnd, allsherjar- og menntamálanefnd geri ég ráð fyrir, og komi að því loknu aftur til afgreiðslu í þingsal. Ég ítreka að með flutningi þessa máls er ekki verið að draga úr umfjöllun fjölmiðla um dómsmál nema að þessu leyti sem varðar einkalíf þeirra sem eiga erindi í dómhús, hvort sem er sem vitni eða sem ákærðir eða grunaðir. Því óska ég þess og vænti þess að frumvarpið fái vandaða meðferð í nefnd og það komi að lokinni slíkri yfirferð hingað aftur inn í þingsal til afgreiðslu.