150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

meðferð sakamála.

140. mál
[18:36]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að skýra þetta betur út fyrir mér. Það eru tvö atriði í viðbót sem mig langar að fá skýringu á og annað tengist því sem við vorum að ræða hér. Skil ég það sem sagt rétt að þetta eigi ekki bara við um ákærða heldur líka eftir að dómur er fallinn og viðkomandi hefur verið dæmdur sekur?

Hitt varðar dönsku réttarfarslögin sem ég myndi bera fram á frummálinu ef ég treysti mér til þess með réttum hreim. Hv. þingmaður kom inn á að einnig væru óheimilar myndatökur og hljóðupptökur af sakborningum, brotaþolum eða vitnum á leið í dómhús eða frá því án samþykkis þeirra. Ég velti fyrir mér hvernig þessi framkvæmd gæti verið. Hversu langt nær þetta bann? Hvenær er maður á leiðinni í Héraðsdóm Reykjavíkur svo dæmi sé tekið? Það liggur svo vel við höggi hér í nágrenninu. Er það á öllu Lækjartorginu? Ef ég verð fyrir þeirri ólukku einhvern tímann að verða dæmdur, hvenær er ég hættur að vera á leiðinni frá dómhúsinu og á leið heim til mín eða hvert sem maður fer við þær aðstæður? Ég er ekki að snúa út úr, ég tek það fram, mig langar raunverulega að skilja framkvæmdina. Af því að hér er vísað í dönsku réttarfarslögin spyr ég sérstaklega hvernig þetta virki í framkvæmd.