150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

meðferð sakamála.

140. mál
[18:38]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Eftir þeirri þekkingu sem ég hef á rekstri Héraðsdóms Reykjavíkur eru sakborningar yfirleitt fluttir bakdyramegin að húsinu og koma ekki að því Lækjartorgsmegin, svo dæmi sé tekið. Víða erlendis er það svo að þeir sem eiga erindi í dómhús, sérstaklega þeir sem eru sakborningar, grunaðir og/eða dæmdir, eru færðir inn í húsið undir bílakjallara þannig að fólk er ekki eins berskjaldað víða erlendis og er hér vegna þess að Héraðsdómur Reykjavíkur er í gömlum banka. Menn vildu náttúrlega hafa gott aðgengi að þeim banka.

Hvað varðar Lækjartorgið er það þannig að ef maður er vitni samkvæmt þessu hér verða ekki teknar af honum myndir á leið að dómhúsinu nema hann eða hún leyfi það sjálfur eða sjálf. Hv. þingmaður er fyrrum blaðamaður en ekki ég þannig að hann er kannski betur að sér í því hversu langt frá vettvangi blaðamenn byrja að reyna að hasla sér völl. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því en ég ætla að við inngang að dómhúsinu og í einhverri fjarlægð þar frá, þegar ljóst er að t.d. vitni í mikilvægu máli eða eitthvað slíkt sem vekur forvitni og athygli á þar leið um, sé það skilyrðislaust þannig að það vitni eigi rétt á því að vera laust við myndatökur af persónu sinni nema þá að veita leyfi til þess. Nánar get ég ekki alveg farið út í þetta vegna þess að þessu fylgir ekki metrakerfi. (Forseti hringir.) Ég segi aftur að yfirleitt fara sakborningar í sakamálum bakdyramegin að héraðsdómi og þá er yfirleitt erfiðara fyrir myndatökumenn að komast að þeim.