151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

opinberar fjárfestingar og atvinnuhorfur.

[13:04]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta upp. Ég held að við séum algjörlega sammála um að lausnin út úr þeim vanda sem við erum í er að við sköpum eins mikla atvinnu og hægt er, bæði hið opinbera með opinberum fjárfestingum og að örva almenna atvinnulífið. Það erum við að gera með frumvarpi sem er hjá þinginu um skattalega hvata, bæði á yfirstandandi ári og næsta ári vegna grænna fjárfestinga. Ég er sammála hv. þingmanni að við þurfum að gera meira en minna í því. Við verðum að horfa til enn frekari opinberra fjárfestinga.

Það er rétt að sumt af því sem við ætluðum að koma í gang á síðasta ári dróst og fer þá yfir á þetta ár. Þetta ár verður þá enn betra heldur en var áformað. Ég get nefnt sem dæmi að hjá Vegagerðinni voru fjárheimildir fyrir nokkra milljarða vegna síðasta árs. Þannig hefur það reyndar verið á undanförnum árum. Ég hef rætt það aðeins við nokkra þingmenn úr umhverfis- og samgöngunefnd að þegar menn fara að uppfæra það plagg sem þar er, þ.e. töflurnar, þá ættum við að horfa til þess að í fimm ára aðgerðaáætlun samgönguáætlunar eigi að vera aðeins meira en rímar við fimm ára fjármálaáætlun. Við höfum verið dálítið upptekin af því að láta það vera eiginlega á sama pari en ég er á þeirri skoðun og það sýnir reynslan að Vegagerðin þurfi að hafa fleiri verkefni til að taka úr hillunni og koma í framkvæmd vegna þess að staðreyndin er, og ég veit að hv. þingmaður getur verið sammála mér um það, að alls konar seinkanir, hvort sem eru tafir á umhverfismati eða skipulagi eða jafnvel í hönnuninni, gera stundum að verkum að verk fara seinna af stað en ella. Það kemur niður á hagstjórninni og því markmiði okkar að skapa atvinnu. (Forseti hringir.) Þannig að ég held að það sé ein leið til að takast á við þetta og við munum sjá meiri framkvæmdir á þessu ári fyrir vikið.