151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

hálendisþjóðgarður og ferðaþjónusta.

[13:23]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég sé almennt mikil tækifæri í því fyrir íslenska ferðaþjónustu að hálendið sé rammað inn og tekin ákvörðun um þjóðgarð þar. Ég er þeirrar skoðunar. Í því felast mikil tækifæri en það skiptir auðvitað öllu máli hvernig það er gert og hvaða sjónarmið vega þyngst í því. Það er mín persónulega skoðun að mér fyndist allt í lagi að hugsa, í ljósi umræðu um málið, hvort það sé möguleiki að taka fleiri skref en smærri, sem mér finnst líka bara í anda þess að tala um þjóðgarð. Það að koma á fót svona stórum þjóðgarði, svona stórum hluta af landinu, þarf auðvitað að vera í sátt og það er verkefni okkar að vinna að því. Það er erfitt að koma á fót risastórum þjóðgarði ef mjög takmörkuð sátt ríkir um það. Ég ætla ekki að fullyrða hvernig málin þróast í þeim efnum en þessi sátt þarf að vera til staðar. Ég held að þetta (Forseti hringir.) þurfi tíma. Ég er sammála því að það eru margir sem hafa ákveðnar hugmyndir um þjóðgarðinn, vantar svörin og vantar kannski frekari tíma til að kynna sér það. (Forseti hringir.) Það er líka partur af þeim meðgöngutíma sem ég er að tala um af því að ég held að hugsunin um þjóðgarð á hálendinu sé góð og í því felist tækifæri fyrir ferðaþjónustu.