152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

fæðuöryggi.

[15:50]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað ýmislegt sem hefur verið til skoðunar, til að mynda það að breyta reglum tímabundið um merkingar matvæla í innflutningi. Aðilar á markaði þurfa þá að skipta út tilteknum innihaldsefnum til að taka út sólblómaolíu o.s.frv. Sjálf hef ég hvatt bændur til að hefja byggræktun, ég held að það sé gríðarlega mikilvægt og ég held að við getum gert miklu betur þar. Eins og kom fram fyrr í fyrirspurnatímanum, í svari hæstv. forsætisráðherra, þá er það hluti af verkefnum þjóðaröryggisráðs að huga sérstaklega að birgðahaldi, ekki bara í matvælum heldur líka í lyfjum og eldsneyti. Það er allt saman til skoðunar og að þeirri vinnu hefur matvælaráðuneytið aðgang.

Ég árétta það eftir sem áður að þó að við séum að vinna að viðbragðsáætlun á landsvísu þá er það svo að á þessu ári er engin ástæða til að telja að líkur séu á stórfelldum vandræðum af þessum sökum hér innan lands en til þess gæti komið á næsta ári ef stríðið dregst á langinn.