152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

fæðuöryggi þjóðarinnar í ljósi stríðsins í Úkraínu.

[16:31]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Líkt og fram kemur í skýrslu þjóðaröryggisráðs frá því í fyrra og í skýrslu sem unnin var í kjölfar bankahrunsins og birt var í mars 2009 er staða okkar Íslendinga veikari en nágrannaþjóða þegar kemur að fæðuöryggi. Við erum háð reglulegum innflutningi matvæla og geta til fjölbreyttrar matvælaframleiðslu er takmörkuð. Efnahagshrunið haustið 2008 sýndi okkur ljóslega að gjaldeyrisskortur getur haft alvarleg áhrif. Til að auka fæðuöryggi þjóðarinnar væri því gott að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru í stað örmyntarinnar íslensku krónunnar. Í bankahruninu voru t.d. aðeins til kornbirgðir í landinu til fárra vikna. Ef innflutningur hefði stöðvast og viðskipti lamast, svo sem ef greiðslumiðlun hefði ekki virkað, hefði það ógnað fæðuöryggi með beinum hætti. Greiðslumiðlunarkerfi sem notuð eru hér á landi er nú öll í eigu erlendra aðila og falla því ekki að öllu leyti undir íslenska lögsögu, ólíkt því sem var í hruninu. Af því kann íslensku efnahagskerfi að stafa ógn og það varðar þjóðaröryggi að tryggja innlenda greiðslumiðlun. Bæði matvælaframboð og framleiðsla er háð innflutningi aðfanga, svo sem fóðurs, áburðar og umbúða, og hvernig fiskveiðum yrði hagað ef olíubirgðir væru takmarkaðar. Innlend framleiðsla myndi fljótlega dragast saman ef aðgangur að alþjóðlegum mörkuðum skertist. Það blasir því við og hefur gert lengi að við verðum að gera ráðstafanir og áætlanir um neyðarbirgðir innan lands og í hverjum landshluta fyrir sig. Fæðuöryggi gæti verið ógnað með stríði, heimsfaraldri, náttúruhamförum eða vegna loftslagsvár af mannavöldum. Það er nauðsynlegt að leggja mat á mikilvæg svæði vegna fæðuframleiðslu og vatnsöryggis og huga að stefnumótun í landnýtingu til matvælaframleiðslu með tilliti til landkosta og ræktunarmöguleika.