152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

fæðuöryggi þjóðarinnar í ljósi stríðsins í Úkraínu.

[16:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að við ræðum um öryggi þjóðarinnar frá öllum sjónarhornum, líka út frá sjónarhorni fæðuöryggis. Við erum eyland í þeim skilningi að við erum sjálfstæð þjóð, umkringd hafi, en við skulum heldur ekki gleyma því að á alþjóðasviðinu er enginn eyland. Allar þjóðir eru öðrum háðar og við erum ekki sjálfum okkur næg. Þótt við framleiddum nægan mat til að standa undir neyslu þjóðarinnar þá yrði framleiðslan enn háð erlendum aðföngum, tækjum og olíu. Þess vegna eru hagsmunir okkar Íslendinga undir því komnir að í heiminum öllum séu viðskipti frjáls og það ríki friður. Íslenskur landbúnaður og sjávarútvegur gegna mikilvægu hlutverki. Við framleiðum matvöru í hæsta gæðaflokki. Við eigum að styðja áfram við framleiðslu á heilnæmri og hollri íslenskri landbúnaðarvöru og þar er stærsta sóknartækifærið líklega í íslensku grænmeti. En höft og hömlur, t.d. í formi tolla og undanþágna frá samkeppnislögum, gera akkúrat ekki neitt til að tryggja fæðuöryggi okkar. Það sem það gerir helst er að hækka matvælaverð öllum neytendum til óhags. Við erum jafn háð innflutningi á áburði, korni og olíu þótt við leggjum háa tolla á erlendan kjúkling, kartöflur o.fl. Það er mjög mikilvægt að bæta fæðuöryggi þjóðarinnar og það þarf að gera. Við getum náð árangri með því að rafvæða t.d. innlenda framleiðslu og auðvelda bændum áburðarframleiðslu í eigin þágu. En ég vil vara við þeim röddum sem halda því fram að viðskiptahömlur bæti öryggi okkar. Þvert á móti draga þær úr möguleikum okkar til að tryggja nægilegt framboð af fæði ef skortur verður á heimsvísu. Eftir stendur að besta verkfærið okkar í fæðuöryggismálum er að leggja okkar af mörkum til að viðhalda friði í heiminum og tryggja áfram gott og dýpra samstarf við þau ríki sem stefna að sama marki.