152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

málarekstur ráðherra fyrir dómstólum.

423. mál
[17:30]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég vil segja það alveg skýrt hér að þegar ráðherrar hefja störf fá þeir kynningu á þessum skráðu og óskráðu reglum sem ég fór yfir í mínu svari, sem þeir eiga að fylgja við ákvarðanir sínar. Þeir bera ábyrgð á því, af því að hér var vitnað sérstaklega til mála sem lúta að ráðningarmálum, að störf hæfisnefnda séu í takt við þær reglur sem gilda og síðan er það endanleg ábyrgð ráðherra að taka málefnalega ákvörðun. Oft skila hæfisnefndir nokkrum umsækjendum í viðtal til ráðherra og þá þarf að liggja fyrir að það séu sambærilegar spurningar og sambærilegt ferli en endanleg ábyrgð og ákvörðun er á hendi ráðherra í þessum málum. Þetta er alltaf farið yfir í upphafi hvers kjörtímabils og fyrir hvern þann ráðherra sem kemur nýr inn í ríkisstjórn.

Ég var aðeins í lokin á máli mínu áðan að vitna til þess að gefnar hefðu verið út leiðbeiningar vegna fyrirsvars ríkisins og eins var það ein af niðurstöðum stefnumótunarvinnu hjá embætti ríkislögmanns að hann skyldi móta viðmið og meginreglur um fyrirsvar embættisins í málum sem eru rekin fyrir dómstólum fyrir hönd ríkisins, sem ég held að sé mikilvægt atriði því að lögin eru frá 1985, ef ég man rétt. Þau eru komin til ára sinna, þau eru mjög almenn og taka kannski ekki fullt mið af þeim breytingum sem orðið hafa í samfélaginu, þannig að þetta stendur fyrir dyrum.

Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir spurði beint út um tiltekið mál g ég get upplýst, eins og ég hef upplýst áður í þingsal, að þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra aflaði lögfræðiálits vegna þess máls sem hér var rætt. Fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra gerði grein fyrir úrskurði kærunefndar jafnréttismála vegna skipunar í embætti ráðuneytisstjóra á ríkisstjórnarfundi 2. og 5. júní 2020. Þessi álitsgerð var aldrei lögð fram á fundinum (Forseti hringir.) þannig að ríkisstjórn var gerð grein fyrir þessum úrskurði. En eins og kom fram í máli mínu þá er endanleg ákvörðun síðan á endanum á ábyrgð hvers ráðherra, (Forseti hringir.) og það er ekkert óskýrt eða óljóst við það í íslenskri stjórnskipun, (Forseti hringir.) og að ákvarðanir skuli fylgja þessum meginreglum sem ég nefndi.