152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

skoðun ökutækja og hagsmunir bifreiðaeigenda á landsbyggðinni.

228. mál
[17:33]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það var á 150. þingi að ég vakti athygli þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra Sigurðar Inga Jóhannssonar á vanköntum bifreiðarskoðana og þjónustuskyldu á norðausturhorni landsins vegna áforma Frumherja um að hætta bifreiðaskoðun á Þórshöfn á Langanesi, Raufarhöfn og Kópaskeri. Það mál var þó annars eðlis en óneitanlega eru á því máli og þessu margir sameiginlegir snertifletir. Í grunninn snýst þessi fyrirspurn nú og þá um hagsmuni bifreiðaeiganda á landsbyggðinni sem þurfa að sækja skoðun á þjónustu um langan veg. Þetta á ekki síst við um bændur og önnur þau sem þurfa að koma stórtækum vinnuvélum, sem sjaldnast fara nú út fyrir 15 km radíus, á skoðunarstað langt frá sinni heimabyggð.

Tilefni þessarar fyrirspurnar nú eru reglugerðarbreytingar varðandi skoðun ökutækja nr. 414/2021. Kröfur um aukið öryggi bifreiða eru sjálfsagðar, ekki síst í því ljósi að fjölgun bifreiða á Íslandi hefur verið gríðarleg vegna fjölgunar ferðamanna síðasta áratuginn eða svo. Ljóst er að kröfu þessar koma betur við bifreiðaeigendur í borg en í sveit og vegur þar þyngst sú hætta að eiga yfir höfði sér akstursbann í stað endurskoðunar fjarri heimili sínu með þeim kostnaði sem af því hlýst. Það verður sett akstursbann á bíla ef t.d. olía eða eldsneyti lekur, en áður var það endurskoðun, eins og ég sagði. Akstursbann er auðvitað mjög harkaleg aðgerð. Skoðunarmanni ber að banna akstur bíls, sjái hann olíudropa falla niður af gírkassa eða vél. Þeir sem til þekkja segja að mikið sé til af gömlum bílum þar sem ekki sé auðvelt að stöðva slíkan leka og það er líka af þeirra hálfu talað um að olíuleki hafi ekki tiltakanlega mikil áhrif á umferðaröryggi. Svo eru verulega hækkuð vanrækslugjöld, sem fara annars vegar úr 15.000 í 30.000 kr. og úr 15.000 í 40.000 kr., t.d. fyrir vörubíla og rútur.

En það er ekki allt vont í þessari reglugerð. Eitt af því góða er að færður er til tími þar sem sumarökutæki fara í skoðun, þ.e. að vori áður en haldið er út á þjóðvegina, en ekki að hausti eins og áður hefur verið.

Það liggur í augum uppi, virðulegur forseti, að þjónustu sem þessa er eðlilegt og sanngjarnt að veita með sem minnstri fyrirhöfn fyrir bifreiðaeigendur, enda óásættanlegt að bifreiðaeigendum sé gert að ferðast um langan veg með tilheyrandi tekju- og vinnutapi til að sinna lögskyldu eftirliti. Það má tryggja með ríkari kröfu um þjónustuskyldu skoðunaraðila, samningum sem tryggja að skoðunarmenn eða færanlegar skoðunarstöðvar sinni landsbyggðunum öllum með tilliti til settra viðmiða, hámarkskílómetrafjölda eða ferðatíma skoðunarstöðva við byggðarkjarna. Það er þjónusta sem væri sómi að í þágu byggðajafnréttis í landinu. Við getum ekki gert þá kröfu að það sama gildi um þau sem búa í dreifðustu byggðum okkar lands og þau sem búa í þéttbýli. Aðstæður hér eru í því tilliti gerólíkar því sem víðast gerist innan ESB, þaðan sem innleiðing þess er ættuð. Ég hef áhyggjur af því að þessi tilskipun komið harðast niður á þeim sem efnaminni eru sem eiga gamla og viðhaldsfreka bíla og þurfa að auki um langan veg að fara. Það fellur í hlut ríkisins, sem hér leggur fram kröfur sem þyngja fremur sporin fyrir ákveðna landshluta, að leiðrétta þetta, ekki síst í ljósi máttleysis þjónustuveitanda til að takast á við þessa áskorun af eigin rammleik.