152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

rafræn stjórnsýsla við afgreiðslu umsókna hjá Útlendingastofnun.

255. mál
[18:48]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að koma hingað og ræða fyrirspurn mína varðandi rafræna stjórnsýslu Útlendingastofnunar við móttöku og afgreiðslu umsókna.

Ég ræddi sambærilega fyrirspurn við þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra, Sigríði Á. Andersen, á 149. þingi árið 2019. Þá hafði Ríkisendurskoðun nýlega skilað skýrslu um málsmeðferð og verklagsreglur Útlendingastofnunar sem unnin var að beiðni Alþingis. Ein af meginniðurstöðum þeirrar skýrslu var að ríkisendurskoðandi taldi að bæta mætti áætlanagerð og skilvirkni í meðferð umsókna hjá Útlendingastofnun og auk þess mætti stytta málsmeðferðartíma með því að innleiða betri upplýsingakerfi og taka upp rafrænt umsóknarferli. Hæstv. ráðherra og þingmenn sem þá tóku þátt í umræðunni voru sammála um mikilvægi þess að leggja áherslu á innleiðingu rafrænnar stjórnsýslu á þessu sviði.

Breytingar á eftirspurn eftir þjónustu Útlendingastofnunar á síðustu árum kalla á breytt verklag. Það á við um allar umsóknir, hvort sem er um dvalarleyfi, alþjóðlega vernd eða sameiginlega vernd vegna fjöldaflótta fyrir þá sem nú hafa flúið Úkraínu. Árið 2021 bárust yfir 7.000 umsóknir um dvalarleyfi og hafði orðið um 20% aukning frá árinu 2018. Þá varð 125% aukning í veitingu ríkisborgararéttar árið 2021 frá því sem mest hafði verið á árinu 2019. Fjöldi umsókna um alþjóðlega vernd var árið 2021 872, en gera má ráð fyrir fleiri umsækjendum 2022 samhliða tíðari ferðum til landsins.

Eftir því sem ég best veit er megninu af umsóknum og gögnum enn skilað til Útlendingastofnunar á pappír, hvaða leyfi sem þær varða. Það er vart boðlegt, hæstv. forseti, hvorki fyrir starfsfólk né umsækjendur, að umsóknareyðublöð séu öll á pappír og síðan færð handvirkt inn í upplýsingakerfi, hvað þá þegar fjöldi umsókna fer vaxandi ár frá ári. Það er tímafrekt, óskilvirkt og skapar hættu á villum og mistökum. Umsækjendur hafa enga möguleika á að fylgjast með stöðu eða afdrifum umsóknar meðan á málsmeðferð stendur. Markviss notkun gagnagrunna og upplýsingakerfa gæti að auki gefið stjórnvöldum mun betri samtímaupplýsingar til að nýta við áætlanagerð og skipulag þjónustu. Útlendingastofnun hefur ítrekað skilgreint rafræna stjórnsýslu sem eitt af sínum mikilvægustu umbótaverkefnum. Samt sem áður virðist hægt miða og því hef ég lagt fram skriflegar spurningar til hæstv. ráðherra um innleiðingu rafrænnar og stafrænnar stjórnsýslu í þjónustu Útlendingastofnunar, forgangsröðun, kostnað og áhrif á notendur og stjórnvöld.