152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

ákall Fangavarðafélags Íslands.

293. mál
[19:17]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég fagna líka þessari fyrirspurn og svörum ráðherra. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við ræðum þetta mál. Ég minnist þess að þegar ég sá póstinn og ákallið frá fangavarðafélaginu þá höfðum við nýverið verið með umboðsmann Alþingis í allsherjar- og menntamálanefnd að fara yfir OPCAT-skýrslu. Þar benti umboðsmaður Alþingis einmitt á að flóknustu málin kæmu upp þegar um væri að ræða tvö ráðuneyti, þ.e. dómsmálaráðuneytið, sem fer fyrir fangelsismálum, og svo til að mynda heilbrigðisráðuneytið eða menntamálaráðuneytið. Vegna þess að við erum með báða hæstv. ráðherra hér í salnum, hæstv. dómsmálaráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherra, vil ég hvetja þá til að vera í þéttu og góðu samstarfi til að tryggja mikilvæga þjónustu fyrir fanga. Ég vil fagna því sérstaklega að okkur hafi tekist að tryggja rekstur geðheilbrigðisteymis fyrir fanga sem hæstv. heilbrigðisráðherra kynnti nú í janúar. (Forseti hringir.) Ég hvet til þess að við horfum á þetta. Í svona litlu (Forseti hringir.) og frábæru landi eins og Íslandi eigum við ekki að láta einhver stjórnsýslusíló stoppa (Forseti hringir.) okkur í að veita bestu mögulegu þjónustu.