152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

viðbrögð við efnahagsástandinu.

325. mál
[20:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Óhjákvæmilegt var að fara aðeins yfir fortíðina vegna þess að því var haldið fram hér að ríkisstjórnin hefði ekki gripið til aðgerða vegna aðstæðna fyrir nokkrum misserum síðan sem hefði valdið einhverjum gríðarlegum vanda. En sá vandi er ekki að birtast okkur í lífskjaramælingum á Íslandi í dag, þvert á móti. Lífskjör hafa vaxið ár frá ári og kaupmáttur fór vaxandi í heimsfaraldrinum. Þetta er staðan, staða heimilanna hefur ekki áður verið betri og raunvaxtastig húsnæðislána ekki verið jafn lágt í langan tíma.

Varðandi skuldastöðu ríkissjóðs, sem hv. þingmenn hafa komið inn á, fleiri en einn, þá var ég svo sem ekkert að lýsa áhyggjum af henni. Ég var bara að segja að það er rétt að beita ríkisfjármálunum af krafti, taka á sig hallareksturinn þegar aðstæður í hagkerfinu kalla á það. En þegar hagkerfið hefur tekið við sér, atvinnuleysi er horfið, slakinn farinn úr hagkerfinu, þá á aftur að fara að beita meira aðhaldi og það er ekki bara til þess að við söfnum ekki skuldum, það er einmitt m.a. vegna verðbólgunnar þannig að menn séu ekki að ýta undir verðbólguna á röngum tíma í hagsveiflunni. Það væri óskynsamlegt.

Menn kalla eftir því að vextir hér verði eins og í útlöndum, það væri að sjálfsögðu eftirsóknarvert en það þarf margt að fylgja. Þá fá menn væntanlega líka launahækkanir eins og í útlöndum, ekki launahækkanir eins og á Íslandi miðað við vaxtastig eins og er þar. Þetta þarf að haldast í hendur og að hluta til finnst mér stundum eins og við séum að tala um það hvort eigi að koma á undan. Ég held það væri skynsamlegt að við myndum byrja á því að gera kjarasamninga sem samrýmast ástandinu í hagkerfinu en ekki þvinga það fram í gegnum það að skipta út gjaldmiðlinum, svo dæmi sé tekið, og sannarlega verður það ekki þvingað fram með því að koma bara með lægri vexti.

Aðgerðirnar sem koma til álita eru einfaldlega tilfærslukerfi, barnabótakerfið, leigubætur og annað þess háttar. Þetta eru tilfærslukerfi sem hafa reynst vel og skilað árangri og við horfum til þess að nýta ef við sjáum vandann birtast hjá þessum viðkvæmu hópum.

Varðandi húsnæðismarkaðinn (Forseti hringir.) sérstaklega ætla ég bara að segja hérna í lokin: Ég hef eiginlega meiri áhyggjur af þeim sem eru enn utan húsnæðismarkaðar en af þeim sem eru komnir inn á húsnæðismarkaðinn. Veggurinn inn á húsnæðismarkaðinn er alltaf að hækka. Það er orðið sjálfstætt stærra áhyggjuefni.